Skúli í Subway sýknaður af kröfu Sveins

EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway veitingastaðina.
EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway veitingastaðina. Arnaldur Halldórsson

Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan er kenndur við veitingastaðina Subway, var í gær sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands af kröfu Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, en hann flutti málið fyrir hönd þrotabús EK1923 ehf., sem áður var heildverslunin Eggert Kristjánsson. Sveinn Andri er skiptastjóri búsins.

Krafði Sveinn Andri Skúla um greiðslu á 2,2 milljónum sem hann taldi að hafi verið greiddar út úr EK1923 þegar ljóst var að það væri orðið gjaldþrota. Skúli var eigandi félagsins og varð það síðar að birgja fyrir Stjörnuna, rekstraraðila Subway-staðanna. Fékk hann félaga sinn til að taka sæti í stjórn og annan mann til að koma að endurskipulagningu félagsins. Það gekk ekki og tók annað félag yfir birgjahlutverkið.

Laut ekki boðvaldi Skúla

Eftir þá breytingu, en mánuði fyrir úrskurðardag um gjaldþrot, voru tvær greiðslur sendar á erlenda birgja félagsins sem sáu Subway fyrir vörum. Kom fram að bæði Skúli og Guðmundur Hjaltason, starfsmaður Skúla, hefðu beint því að starfsmanninum, sem átti að sjá um endurskipulagið og hafði prókúru, að greiða reikningana. Hann hafi svo að lokum gert það eftir munnleg fyrirmæli frá Guðmundi, en engin bein fyrirmæli hafi komið frá Skúla. Einnig hafi hann fengið skrifleg fyrirmæli um millifærslurnar frá stjórnarmanninum.

Í dóminum kemur fram að Skúli hafi ekki verið stjórnarmaður eða prókúruhafi í félaginu og þá hafi starfsmaðurinn ekki talið sig lúta boðvaldi Skúla. Því verði ekki sýnt fram á að Sveini Andra hafi tekist að sýna fram á að Skúli hafi valdið þrotabúinu skaðabótaskyldu tjóni, en Sveinn byggði málið á að hægt væri að beina skaðabótakröfu, vegna tjóns sem hlaust af ráðstöfun félagsins, til þriðja aðila, sem í þessu máli er Skúli.

Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur.
Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Skúli sýknaður, en reikningur lögmanns of hár

Sem fyrr segir var Skúli sýknaður af kröfu Sveins Andra og þrotabúsins og var þrotabúinu gert að greiða 2 milljónir vegna kostnaðar Skúla við málsvörnina. Hafði lögmaður hans lagt fram skrá yfir tímafjölda þar sem upphæðin var 3,5 milljónir fyrir 137 tíma vinnu. Þar af voru 84 klukkustundir sagðar hafa farið í vinnslu greinargerðar, eða rúmar tvær vikur.

Dómarinn var þó ekki alveg tilbúinn að fallast á þá upphæð. „Útilokað er að fallast á miðað við umfang máls þessa að svo langan tíma hefði þurft til að semja greinargerð og verður stefnanda því gert að greiða stefnda 2.000.000 króna í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti,“ segir í dóminum.

Þetta er eitt af nokkrum málum milli Sveins Andra og Skúla vegna þrotabúsins, en þeir hafa kært hvor annan til héraðssaksóknara. Skúli hefur hafnað þeim ásökunum sem Sveinn setti fram í málinu.

Þá kyrrsetti sýslumaður eignir Skúla vegna deilna þeirra um mitt síðasta ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert