Þrengslin og Hellisheiði opin fyrir umferð

Björgunarsveitir hafa aðstoðað fólk á Mosfellsheiði í dag.
Björgunarsveitir hafa aðstoðað fólk á Mosfellsheiði í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Búið er að opna bæði Hellisheiði og Þrengslin aftur fyrir bílaumferð en óvíst er hvort Mosfellsheiði opnist í kvöld. Lyngdalsheiði verður lokuð til morguns.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Eins og áður hefur komið fram þá er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður vegna snjóflóðahættu og þá er Krýsuvíkurvegur lokaður.

Það er hálka eða hálkublettir á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi. Þungfært er milli Nesjavalla og Þingvallavegar.

Hálka og snjóþekja er á Vesturlandi og sums staðar skafrenningur. Fróðárheiði er ófær.

Víða er þæfingsfærð á Vestfjörðum. Súðavíkurhlíð er lokuð og Steingrímsfjarðarheiði ófær.

Éljagangur og skafrenningur er á Norðurlandi og víðast hálka eða snjóþekja á vegum. Talsvert snjóar á Öxnadalsheiði og þar er komin þæfingsfærð.

Víðast er greiðfært á láglendi á Austurlandi en hálka eða hálkublettir á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum. Breiðdalsheiði og Öxi eru opnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert