Töldu jafnréttisumræðu óþarfa árið '99

mbl.is/ASH

Kynbundin áreitni og ofbeldi leiðir til lægri framleiðni á vinnustöðum, aukinnar starfsmannaveltu, óþarfa kostnaðar, slæms starfsanda og þar af leiðandi til lægri vergrar þjóðarframleiðslu og aukinna útgjalda vegna velferðarmála, heilsugæslu og lyfjakostnaðar. Þetta kom fram í málstofu um #metoo-byltinguna sem á Læknadögum í Hörpu í morgun.

Fjöldi fundarmanna fögnuðu byltingunni og umræðunni um réttindi kynjanna. Þar á meðal var einn kvenkyns læknir sem sagði í umræðum mikið vatn runnið til sjávar frá árinu 1999 þegar hún var stödd á fundi ásamt fullum sal af karlkyns læknum sem voru allir á einu máli um að jafnréttisumræða innan læknastéttarinnar væri óþörf þar sem ekkert misrétti væri að finna.

Þann 11. desember á síðasta ári skrifuðu 433 íslenskir læknar undir yfirlýsingu vegna kynbundinnar mismununar, áreitni og ofbeldis. Tíu valdar frásagnir fylgdu yfirlýsingunni sem var áskorun til starfsmanna og stjórnenda í heilbrigðisgeiranum að taka saman höndum gegn þessum vanda. Sambærilegar áskoranir hafa verið sendar út í Noregi og Svíþjóð, í Svíþjóð skrifuðu 10.400 læknar undir sambærilega áskorun snemma árs 2017 og í desemberbyrjun sl. skoruðu 3.600 norskir læknar á yfirmenn heilbrigðisstéttarinnar að taka á vandanum.

Gerendurnir yfirleitt eldri karlar ofar í valdastiga

Ólöf Sara Árnadóttir handaskurðlæknir var ein af forsprökkum #metoo í læknastéttinni hér á landi og segir hún upphaf byltingarinnar innan stéttarinnar hafa orðið með stofnun Facebook-hóps 22. nóvember á síðasta ári fyrir kvenkyns lækna. Meðlimafjöldinn fór upp í 700 á þremur sólarhringum og fóru þar fram umræður um stöðu kvenna innan læknastéttarinnar.

mbl.is/ASH

„Það var einkennandi hvað það tók langan tíma að rifja upp einstök atvik,“ sagði Ólöf Sara í erindinu sínu á fundinum sem fór fram í salnum Kaldalóni. Segir hún að sem dæmi um kynferðislega áreitni hafi verið klapp á rassinn eftir aðgerð, óumbeðnir kossar og óvenjulangt axlanudd. „Þetta voru vel yfir hundrað frásagnir og bera þær vitni um kynbundna mismunun, kynferðislega áreitni, þöggun og jaðarsetningu. Jafnvel þannig að það hafi áhrif á starfsferil viðkomandi konu,“ sagði Ólöf Sara.

Gerendurnir eru yfirleitt eldri karlmenn ofar í valdastiga, en með undantekningum er gerandinn yngri samstarfsmaður eða skjólstæðingur. Þá eru dæmi um að aðrar starfsstéttir taki þátt í áreitninni, svo sem sjúkraflutningamenn og hjúkrunarfræðingar. Yngri kvenlæknar verða oftast fyrir barðinu á kynbundinni mismunun en áreitni og mismunun gagnvart sérfræðilæknum birtist í þöggun og jaðarsetningu.

Undirbúningshópur  málsstofunnar var sammála um að ábyrgðin á næstu skrefum væri yfirmönnum heilbrigðisstofnana en hópurinn lagði þó til nokkrar aðgerðir sem ráðast þyrfti í að framkvæma. Þar á er að koma á fót fagráði eða trúnaðarráði innan Læknasambands Íslands, bjóða upp á úrræði fyrir þá sem verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, svo sem lögfræðiaðstoð, sálfræðiaðstoð eða þjónustu geðlæknis. Eins þarf að fara fram góð kynning á úrræðunum, inn á vefsvæðum sérgreinafélaga, heilbrigðisstofnana, í fræðsluefni nýrra starfsmanna og í kennsluefni læknanema.

Vilja sjá breytingar á siðareglum lækna

Meðal framsögumanna fundarins var Svanur Sigurbjörnsson, yfirlæknir og eiturefnafræðingur, sem fór yfir siðferði og siðareglur lækna en hvergi í siðareglunum er minnst á kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Hins vegar segir í siðareglunum að ótilhlýðilegt sé af lækni að stofna til kynferðislegs sambands við sjúkling sem hann hefur til meðferðar. Þá segir í 22. grein siðareglnanna að læknum sé skylt að sýna öðrum læknum drengskap.

Svanur taldi æskilegt að skipta út orðinu drengskap fyrir virðingu og eins væri ekki úr vegi í ljósi umræðunnar undanfarin misseri að bæta við grein um að læknum beri að viðhafa ekki lítilsvirðandi, ógnandi, endurtekna niðrandi eða kynferðislega hegðun gagnvart samstarfsfólki og skjólstæðingum og virtist hugmyndin falla fundarmönnum vel að geði.

Sunna Snædal var fundarstjóri.
Sunna Snædal var fundarstjóri. mbl.is/ASH

Systurnar Sunna og Drífa Snædal fóru báðar með erindi á fundinum. Sunna Snædal læknir var fundarstjóri en Drífa, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins,  fór yfir #metoo-byltinguna í víðara samhengi en innan heilbrigðisgeirans.

Hún fjallaði um mikilvægi þess að finna öryggi á vinnustað, en hún benti á að mikill munur væri á öryggistilfinningu kynjanna í þjónustustörfum. Nær helmingur kvenna finnur til mikillar óöryggistilfinningar á vinnustað vegna kynferðislegrar áreitni, en karlar finni vart til óöryggis af sömu ástæðu. Karlar eru líklegri til að vera áreittir af viðskiptavinum en konur af samstarfsmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert