Útköllum fjölgar jafnt og þétt

TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Bráðabirgðatölur frá flugdeild Landhelgisgæslu Íslands sýna að á nýliðnu ári voru útköll björgunarþyrla og flugvéla stofnunarinnar alls 257. Árið 2016 voru þau 251 og hefur því útköllunum fjölgað enn eitt árið.

Þetta kemur fram á vefsíðu Landhelgisgæslunnar.

Þar kemur fram að aukningin undanfarin ár sé jöfn og þétt en árið 2011 voru útköllin 155. Heildarfjöldi útkalla hjá flugdeild hefur því á þessu tímabili vaxið um 66 prósent, úr 155 í 257. 

Flugferðir Landhelgisgæslunnar á árinu voru alls 628 og eru þá æfinga- og gæsluflug meðtalin, auk leitar og björgunarútkalla. Alls var þyrlum og loftförum Landhelgisgæslunnar flogið í 1.551 tíma en forgangsútköllum fjölgaði úr 87 árið 2016 í rúmlega eitt hundrað í fyrra.

Útköllin voru fleiri en áætlanir Landhelgisgæslunnar gerðu ráð fyrir. Samkvæmt þeim var búist við að um fjórðungur flugtíma yrði vegna leitar- og björgunarverkefna en í reynd var þriðjungur allra flugtíma ársins 2017 vegna slíkra verkefna. Þetta hafði í för með sér að þyrlurnar sinntu löggæslu- og eftirlitsverkefnum og æfingum minna en áformað var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert