Súðavíkurhlíð lokað vegna snjóflóðahættu

mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Vegagerðin hefur lokað veginum um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Mjög hefur snjóað fyrir vestan í nótt að sögn varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði. Spáð er hvassri norðvestanátt með snjókomu eða éljum og erfiðum akstursskilyrðum norðvestan- og vestanlands í dag, fyrst á Vestfjörðum.

Snemma að morgni 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið í Súðavík. Snjóflóðið, sem var rúmlega 200 metra breitt, féll klukkan 6:25 á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Í þeim voru 26 manns og fórust 14 þeirra, þar af átta börn. Húsin sem flóðið féll á stóðu flest utan þess svæðis sem var skilgreint sem hættusvæði vegna snjóflóða.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður nokkuð hvöss norðvestanátt í dag, jafnvel stormur norðvestan til. Snjókoma eða él. Hægari vindur og þurrt á Suðaustur- og Austurlandi. Frost 0 til 7 stig.

Óvissustig gildir um norðanverða Vestfirði vegna snjóflóðahættu:

Um og fyrir helgina var hlýtt og snjóþekjan hlýnaði og blotnaði víða. Kólnað hefur og bætt á snjó sem búast má við að geti orðið óstöðugur vegna hitastigsummyndunar. Snjóflóð féllu á vegi aðfaranótt mánudags. Áframhaldandi snjókomu og skafrenningi er spáð í dag.

Spá 12 stiga frosti

Lægir víða í kvöld og nótt. Hægur vindur á morgun, bjart með köflum og stöku él við ströndina, en allhvöss norðaustanátt með snjókomu á Vestfjörðum. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum. Norðaustangola eða -kaldi og él á fimmtudag, einkum norðvestan til á landinu, en léttskýjað SV-lands. Áfram kalt í veðri.

Veðurspá fyrir næstu daga

Gengur í norðvestan 13-23 með snjókomu eða éljum í dag, hvassast NV-til. Hægari vindur og úrkomulítið á SA- og A-landi, frost 0 til 7 stig. Dregur úr vindi og úrkomu í kvöld. 
Norðaustan 10-18 og snjókoma á Vestfjörðum á morgun. Mun hægari vindur annars staðar og bjart með köflum, en sums staðar él við ströndina. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum.

Á miðvikudag:
Norðaustan 8-15 og snjókoma eða él á Vestfjörðum. Hægur vindur annars staðar, úrkomulítið og bjart veður. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum. 

Á fimmtudag:
Norðaustan 5-13 m/s og él, einkum NV-til, en léttskýjað á SV-verðu landinu. Áfram kalt í veðri. 

Á föstudag:
Norðan 8-13 og snjókoma eða él um landið norðanvert, en þurrt og bjart veður S-til. Frost 0 til 8 stig. 

Á laugardag:
Vaxandi austanátt S- og V-lands, þykknar upp og fer að snjóa um kvöldið. Hægari vindur á N- og A-landi og dálítil él við ströndina. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum N-lands. 

Á sunnudag:
Austanátt og slydda eða snjókoma með köflum, hiti kringum frostmark. 

Á mánudag:
Austlæg átt og snjókoma við N-ströndina, annars úrkomulítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert