Vonskuveður á leiðinni

Hríðarbakki með hvössum norðvestan vindi og jafnvel stormi allt að 18-22 m/s stefnir á Vestfirði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni en veginum um Súðavíkurhlíð var lokað snemma í morgun. Mjög hefur snjóað þarna í alla nótt. Veðrið versnar mjög um níuleytið.

Veðrið verður hvað verst nærri hádegi með skafrenningi, snjókomu og litlu skyggni. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar tekur fram að veðrið verði síst betra á sunnanverðum Vestfjörðum í þessari vindátt. Eins snjóar við Húnaflóann og í Skagafirði en þar verður hægari vindur og víðast aðeins strekkingur. Spáð er hríð og lélegu skyggni síðdegis, þar á meðal á Holtavörðuheiði.  

Það er hálka eða hálkublettir á velflestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi. Á Vesturlandi er hálka og þæfingur er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði. 

Hálka og þæfingur er á Norðvesturlandi. Þungfært er á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi frá Ketilási í Siglufjörð. Snjókoma eða éljagangur mjög víða.

Á Norðausturlandi er hálka eða snjóþekja. Snjókoma og éljagangur mjög víða. Þæfingur er á Grenivíkurvegi. Greiðfært er á láglendi á Austurlandi en hálka eða hálkublettir á fjallvegum. Hálka er á Breiðdalsheiði og Öxi. Hálka frá Vík í Mýrdal í Jökulsárlón en greiðfært eftir það austur á Reyðarfjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert