Guðni flutti ávarp á sænsku

Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpar gesti í sænsku konungshöllinni með …
Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpar gesti í sænsku konungshöllinni með Karl Gústaf konung sér við hlið. Ljósmynd/Kristján Sigurjónsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók til máls á sænsku þegar hann ávarpaði gesti í sænsku konungshöllinni nú rétt í þessu. Sýnt var frá ávarpinu beint á vef konungshallarinnar.

Í ávarpinu fór Guðni yfir samstarf og tengingar á milli Íslendinga og Svía gegnum aldirnar. Sagði hann að í báðum löndum hefðu orðið til samfélög sem byggðust á blöndu af einstaklingshyggju og félagslegri ábyrgð, svokölluð norræn velferðarkerfi. Það væri kerfi þar sem mismunandi straumar og stefnur gætu komið fram.

Sagðist hann horfa fram veginn í samskiptum ríkjanna með miklar væntingar og nefndi að fjöldi Íslendinga byggi í Svíþjóð þar sem þeir væru í námi eða starfi.

Tekið á móti konungi Svía og Guðna í Konungshöllina.
Tekið á móti konungi Svía og Guðna í Konungshöllina. Ljósmynd/Kristján Sigurjónsson

Þá minntist Guðni á mikla tengingu í listum og menningu sem og í íþróttum. Sagði hann nærtækasta dæmið vera handboltaleikinn á EM í handbolta um daginn og svo nefndi hann íslenska þjálfara og leikmenn sem væru hjá sænskum félögum. Þá hefði Ísland notið góðs af Lars Lagerbeck og að með honum hefði komið rétta blandan af sænsku skipulagi og íslenskri einstaklingshyggju.

Að lokum sagðist Guðni vona að allir viðstaddir hefðu skilið hann, en sem fyrr segir flutti hann ávarp sitt á sænsku. Jánkaði konungur því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert