Guðni í beinni frá konungshöllinni

Guðni Th. forseti og Karl Gústaf Svíakonungur ávarpa gesti í …
Guðni Th. forseti og Karl Gústaf Svíakonungur ávarpa gesti í konungshöllinni. Skjáskot/Kungahuset

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Karl Gústaf Svíakonungur  ávarpa gesti í sænsku konungshöllinni í dag og er sýnt frá viðburðinum í beinni á Facebook. Sjá má útsendinguna hér að neðan.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú eru í opinberri heimsókn í Svíþjóðar. Hófst heimsóknin í dag. 

Hér má fylgjast með útsendingu af ávarpi forsetans og kóngsins í beinni á Facebook:

Á fyrsta degi heimsóknarinnar verður formleg móttökuathöfn við Konungshöllina í Stokkhólmi en að loknum hádegisverði þar á forseti fund með forseta sænska þingsins, Urban Ahlin. Í kjölfarið á hann annan fund með Stefan Löfven forsætisráðherra. Á meðan forseti sækir þessa fundi mun forsetafrúin flytja ávarp um bókmenntir og þýðingar á samkomu í Borgarbókasafni Stokkhólms. Um kvöldið bjóða sænsku konungshjónin forsetahjónum og fylgdarliði til hátíðarkvöldverðar í konungshöllinni.

Annar dagur heimsóknarinnar, 18. janúar, hefst með morgunverðarfundi með aðilum úr ferðaþjónustunni, sem Íslandsstofa hefur skipulagt, og mun frú Eliza Reid flytja þar stutt ávarp. Þaðan verður haldið í Karolinska Institutet í Stokkhólmi og þar verður kynning á samstarfsverkefnum sænskra og íslenskra vísindamanna, einkum á sviði lýðheilsufræða, líftækni og hjartalækninga. Að þessum fundi loknum mun forseti kynna sér vistvænar húsbyggingar í Stokkhólmi og skoða fjölbýlishús úr timbri en á sama tíma heimsækir forsetafrúin stóra matarverslun sem rekin er í þeim tilgangi að minnka sóun á matvælum til hagsbóta fyrir efnalítið fólk.

Að loknum hádegisverði í ráðhúsi Stokkhólms í boði borgarstjórnar er gestunum boðið að skoða listasafn Eugens prins á Waldemarsudde. Því næst mun forseti flytja fyrirlestur við stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla en frú Eliza heimsækir Barnahús í Stokkhólmi sem ætlað er að veita börnum, sem grunur er um að séu fórnarlömb ofbeldis, öruggt umhverfi á meðan mál þeirra eru á rannsóknarstigi.

Seint síðdegis bjóða forsetahjónin konungshjónum og fleiri gestum, sem tengjast heimsókninni, svo til móttöku í Moderna muséet, Nútímalistasafninu á Skeppsholmen.

Þriðja og síðasta dag heimsóknarinnar, föstudaginn 19. janúar, halda gestirnir til Uppsala og heimsækja þar fyrst Landbúnaðarháskólann, þar sem sagt verður m.a. frá rannsóknum sem tengjast íslenska hestinum, og svo er farið í Ångström tilraunastofuna þar sem sagt verður frá áhugaverðum orkurannsóknum. Þá er haldið í aðalbyggingu Uppsalaháskóla þar sem stjórnendur skólans taka á móti gestunum og hlustað verður á stutt erindi um norrænar fornbókmenntir. Að því loknu verður farið í bókasafn skólans þar sem gestirnir skoða Uppsala-Eddu, miðaldahandrit sem á sér merka sögu. Í hádeginu býður landshöfðingi Uppsalaléns til hádegisverðar í Uppsalahöll og þar mun utanríkisráðherra afhenda sænskum stjórnvöldum að gjöf 400 sett af nýrri sænskri þýðingu á Íslendingasögum í fimm bindum. Litlu seinna lýkur þessari heimsókn svo með formlegum hætti í Uppsölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert