Vel heppnaður hátíðarkvöldverður konungs

Silvía Svíadrottning og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Silvía Svíadrottning og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósmynd/Sænska konungshöllin

Um 140 prúðbúnir gestir mættu í sérstakan hátíðarkvöldverð Karls Gústafs konungs í sænsku konungshöllinni í kvöld til heiðurs íslensku forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid.

Opinber heimsókn forsetans til Svíþjóðar, sem er sú fyrsta sem hann fer til landsins frá því hann var kjörinn sumarið 2016, hófst í hádeginu í dag og stendur fram á föstudag.

Frétt mbl.is: Guðni flutti ávarp á sænsku

Meðal gesta voru opinbera sendinefndin sem fylgdi Guðna og frú til Svíþjóðar, þar á meðal Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og kona hans, Ágústa Johnson. Þá voru fulltrúar menningar og viðskipta einnig á gestalistanum, sem og sænska stjórnin.

Fyrsta degi opinberrar heimsóknar forsetahjónanna til Svíþjóðar lauk á hátíðarkvöldverði …
Fyrsta degi opinberrar heimsóknar forsetahjónanna til Svíþjóðar lauk á hátíðarkvöldverði í konungshöllinni. Ljósmynd/Sænska konungshöllin

Hér má nálgast gestalistann í heild sinni, en meðal kunnuglegra nafna sem þar má finna eru Lars Lagerbäck og Ari Eldjárn.

Kvöldverðurinn var snæddur í glæsilegum sal í höllinni sem er nefndur í höfuðið á Karli XI konungi Svía frá 17. og 18. öld. Á matseðlinum mátti meðal annars finna bleikju-confit, hjartarkjöt og jógúrtís.

Kvöldverðurinn var reiddur fram í hátíðlegum sal sem er kenndur …
Kvöldverðurinn var reiddur fram í hátíðlegum sal sem er kenndur við Karl XI Svíkonung sem var uppi á 17. og 18. öld. Ljósmynd/Sænska konungshöllin

Opinbera heimsóknin heldur áfram á morgun og þá munu forsetahjónin meðal annars funda með aðilum úr ferðaþjónustunni, heimsækja Karolinska Instituet í Stokkhólmi og kynna sér vistvænar húsbyggingar í Stokkhólmi.

Forsetinn mun einnig flytja fyr­ir­lest­ur við stjórn­mála­fræðideild Stokk­hólms­háskóla en frú El­iza heim­sæk­ir Barna­hús í Stokk­hólmi sem ætlað er að veita börn­um, sem grun­ur er um að séu fórn­ar­lömb of­beld­is, ör­uggt um­hverfi á meðan mál þeirra eru á rann­sókn­arstigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert