LSH notar sjúkraflug til að losa pláss

Sjúkraflugvélin á Reykjavíkurflugvelli.
Sjúkraflugvélin á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/mbl.is

Sjúkraflugum með sérútbúinni sjúkraflugvél á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2013. Aukningin nemur um 100 sjúklingum á milli ára. Skýringin liggur ekki í fjölgun erlendra ferðamanna heldur í flutningi sjúklinga sem hafa lokið rannsóknum eða meðferð á Landspítala á landsbyggðina. Þetta kom fram í málstofunni Bráðaþjónusta utan sjúkrahúsa á Læknadögum.

Fluginu er skipt niður í fjóra flokka eftir alvarleika veikinda sjúklingsins. Mesta aukningin var í svokölluðu F4 flugi sem er í litlum forgangi þar sem veikindi eru ekki alvarleg og sjúklingur er fluttur frá Reykjavík á landsbyggðina. Slík flug eru um þriðjungur. 

„Landspítalinn er að losa um pláss og flytja sjúklinga í heimabyggð,“ segir Björn Gunnarsson læknir sem hélt tvö erindi, Sjúkraflug með þungaðar konur og Sjúkraflug á Íslandi, er kominn tími á að taka næsta skref?  

5% sjúklinga erlendir ferðamenn

Í sjúkrafluginu var eingöngu um 5% sjúklinga erlendir ferðamenn. Hins vegar hefur orðið aukning í öllum sjúkraflutningum, með flugvél, þyrlu og sjúkrabíl, að sögn Björns. Hvað veldur er ekki einfalt að skýra. Ein af ástæðunum gæti verið að fólk er á faraldsfæti og meiri gangur er í þjóðfélaginu og því frístundaslys algengari.

Önnur skýring gæti verið að hækkandi meðalaldur íbúa valdi auknu álagi á heilbrigðiskerfið og læknar úti á landi finni sig því knúna til að senda fleiri sjúklingar frá sér. Það er alveg tilefni til að fara betur ofan í saumana á þessu, að sögn Björns.

Þörf á annarri sjúkraflugvél til viðbótar

Í ljósi fjölgunar sjúkrafluga telur Björn þörf á annarri sjúkraflugvél til viðbótar. „Ég held að það megi fullyrða að ein flugvél anni ekki þessum fjölda. Það er ljóst að það verði að vera tvær flugvélar til taks því annars er hún alltaf upptekin,“ segir Björn. Sömu sögu er að segja um sjúkraþyrlu. Hann bendir á að einnig er þörf á að hafa sjúkraþyrlu á Suðurlandi sem hann segir vera rökrétt næsta skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert