Rannsókn á leka úr Glitni hætt

Rannsókn á leka úr Glitni banka hefur verið hætt á …
Rannsókn á leka úr Glitni banka hefur verið hætt á þeim forsendum að skýrslutökur yfir 20 til 30 manns skiluðu engum upplýsingum um hver hefði dreift upplýsingum úr Glitni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Rannsókn á leka úr Glitni banka hefur verið hætt af hálfu embætti héraðssaksóknara. Fjár­mála­eft­ir­lit­ið kærði gagnaleka úr þrota­búi Glitn­is í október í fyrra. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að rannsókn hafi verið hætt, en Rúv greindi frá málinu fyrr í dag.

Frétt mbl.is: FME kærir gagnaleka frá Glitni

Málið var fellt niður á þeim forsendum að skýrslutökur yfir 20 til 30 manns skiluðu engum upplýsingum um hver hefði dreift upplýsingum úr Glitni. Skýrslutökurnar vörpuðu heldur ekki ljósi á hver eða hverjir hefðu komið gögnum til fjölmiðla.

Stund­in og Reykja­vík Media fjölluðu meðal annars um málið fyrir áramót þar sem áhersla var lögð á viðskipti Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráðherra fyr­ir hrun fjár­mála­kerf­is­ins.

Meðal þeirra sem gáfu skýrslu voru tólf starfs­menn hjá Rík­is­út­varp­inu, Stund­inni og 365 miðlum. Þeir báru allir fyrir sig lög um vernd heimildarmanna og veittu því ekki svör við spurningum um hvernig þeir hefðu fengið gögnin.

Frétt mbl.is: Blaðamenn boðaðir í skýrslutöku

Ólafur Þór segir að málið verði ekki tekið upp að nýju hjá embættinu nema að nýjar upplýsingar komi fram. Fjármálaeftirlitið eða Glitnir HoldCo hefur þann möguleika í stöðinni að kæra niðurfellinguna til ríkissaksóknara sem getur fyrirskipað að rannsókn skuli tekin upp á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert