Bara leiðindaveður í kortunum

Njótið útiverunnar í dag og á morgun því sennilega viðrar …
Njótið útiverunnar í dag og á morgun því sennilega viðrar ekki vel til hennar næstu daga þar á eftir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í spákortum Veðurstofu Íslands fyrir næstu viku sést bara leiðindaveður og bætir veðurfræðingur við „og ekki orð um það meir,“ í hugleiðingum sínum á vef Veðurstofunnar í morgun. Veðrið er aftur á móti ágætt í dag og á morgun.

„Þokkalegasta vetrarveður í upphafi helgarinnar: norðankaldi í dag með ofankomu norðan- og austanlands, en annars bjartviðri og nokkuð frost um land allt. Lægir víða á morgun og léttir til, en kólnar. 
Á sunnudagsmorgni nálgast allkröpp lægð sunnan úr hafi og gengur þá í austanstorm með slyddu eða snjókomu syðst á landinu þegar líður á daginn. Í spákortunum næstu viku sést bara leiðindavetrarveður og ekki orð um það meir,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg átt, 8-15 m/s, hvassast NV-til. Sjókoma eða él á N-verðu landinu, en bjartviðri syðra. Bætir í vind V-til með kvöldinu. Frost yfirleitt 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins. Lægir heldur og léttir víða til á morgun, en áfram dálítil él nyrst og kólnar í veðri.

Á laugardag:

Norðan 8-13 m/s NV-lands framan af degi, en annars hæg breytileg átt. Él á N-verðu landinu, en bjart að mestu syðra. Frost 2 til 12 stig, kaldast í uppsveitum. 

Á sunnudag:
Gengur í austan 13-20 m/s með slyddu eða snjókomu á SA-verði landinu, hvassast syðst, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti kringum frostmark við S-ströndina, en annars talsvert frost. 

Á mánudag:
Allhvöss eða hvöss norðaustanátt með slyddu eða snjókomu, en þurrt að mestu SV-lands. Heldur hlýnandi veður í bili. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir hvassar norðanáttir með ofankomu, en lengst af úrkomulítið sunnan heiða. Áfram kalt í veðri. 

Á fimmtudag:
Dregur líklega úr vindi og rofar til, en áfram kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert