Blóm og út að borða með bóndanum

Blómin gleðja.
Blómin gleðja. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Konur virðast ætla að gleðja bóndann sinn í dag í tilefni bóndadagsins. Blóm og góð máltíð á veitingastað mun eflaust kæta margt mannsefnið því blóm seljast í ríkari mæli og konur eru í meirihluta þeirra sem bóka borð fyrir kvöldið á veitingastöðum borgarinnar.   

„Það hefur selst mikið af blómum í dag, allar tegundir en þó aðallega blómvendir með rósum,“  segir Erna Sólveigardóttir starfsmaður Blómavals og bætir við að eflaust kaupi margar konur kaupi blóm sem þeim sjálfum þykja fallegust. Ósagt skal látið hvort blómin gleðji meira konuna en karlinn.   

Konur á vinnustöðum hafa einnig komið og keypt blóm til að gleðja vinnufélaga sína, að sögn Ernu. Ekki er ljóst hvort blómasalan sé meiri á þessum bóndadegi en síðustu ár en það mun koma í ljós í lok dags.

Margar bóka tveggja manna borð 

„Mikið hefur verið um bókanir tveggja manna borð í kvöld og fleiri íslensk kvenmannsnöfn eru skráð en aðra daga,” segir Grétar Matthíasson veitingastjóri Grillmarkaðarins. Í hádeginu var einnig talsvert um pör sem snæddu saman og líklega voru þau fleiri en vanalega. Erlendir ferðamenn eru einnig stór kúnnahópur þar líkt og aðra daga.  

Sömu sögu er að segja á Mathúsi Garðabæjar en þar er mikið um bókanir tveggja manna borða. Þegar Davíð Daníelsson veitingastjóri Mathúss Garðabæjar rennir yfir bókunarlistann eru býsna mörg íslensk kvenmannsnöfn sem eru skráð fyrir bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert