Brýnt að greina stöðu barna

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Hari

Umboðsmaður barna telur brýnt að efla stefnumótun á mörgum sviðum sem tengjast börnum. Grunnur að því sé greining á stöðu barna í íslensku samfélagi. Þetta kom fram í samræðum umboðsmanns, Salvarar Nordal, og forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, í gær.


Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti í gær embætti umboðsmanns barna og kynnti sér starfsemina og húsakynni. Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, gerði grein fyrir stefnumótun og áherslum embættisins fyrir tímabilið 2018 til 2022, að því er segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

„Rætt var um hagsmuni barna og réttindi og þá hugarfarsbreytingu sem fylgir lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum vegna áherslu hans á mikilvægi þess að hlustað sé á sjónarmið barna í öllum þeim málum er þau varða. Miklu skipti að við allar ákvarðanir stjórnvalda séu hagsmunir barna hafðir í huga og að lagafrumvörp séu sérstaklega rýnd með tilliti til réttinda þeirra og hagsmuna.

Þá voru ræddar leiðir til að auka áhrif barna í samfélaginu og rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós um mál eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,“ segir í tilkynningu til fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert