Leita leiða til að auka útflutning ufsa

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, hélt stutt erindi við upphaf …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, hélt stutt erindi við upphaf Hnakkaþonsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nemendur Háskólans í Reykjavík leita nú leiða til að auka útflutning á sjófrystum ufsa til Bandaríkjanna, en Hnakkaþon 2018, útflutningskeppni HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hófst í gær. Áskorun Hnakkaþonsins í ár felst í að finna leiðir til að auka sölu á sjófrystum ufsa til hótela og veitingahúsakeðja í Bandaríkjunum, en hún var þróuð með Brimi hf., Icelandic, Eimskip og Samhentum.

Fulltrúar nokkurra helstu aðila í sjávarútvegi koma að keppninni.
Fulltrúar nokkurra helstu aðila í sjávarútvegi koma að keppninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferð til Boston í sigurlaun

Hnakkaþonið er nú haldið í fjórða sinn og eru 30 nemendur skráðir í keppnina, í alls sex liðum. Til mikils er að vinna því Icelandair Group og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi bjóða sigurliðinu í fimm daga ferð til Boston, á sjávarútvegssýninguna Seafood Expo North America, í mars. Vinningslið Hnakkaþonsins 2018 verður kynnt á verðlaunaathöfn í HR á laugardaginn kl. 16:00.

Einvalalið sérfræðinga skipar dómnefnd Hnakkaþonsins 2018: Björgólfur Jóhannesson forstjóri Icelandair Group, Bylgja Hauksdóttir umboðsaðili North Coast Seafoods Ltd., Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskipa, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri tengsla í HR, Karl Már Einarsson útgerðarstjóri Brims og Þorgeir Pálsson aðjúnkt við viðskiptadeild HR.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík að útflutningur á sjófrystum ufsa til Bandaríkjanna hafi dregist mikið saman undanfarna tvo áratugi. Árið 1999 nam hann yfir 2500 tonnum en í fyrra voru aðeins flutt út um 400 tonn.

Liðin hófust strax handa og munu kynna lausnir sínar á …
Liðin hófust strax handa og munu kynna lausnir sínar á morgun. mbl.is/Kristinn

Aðallega seldur til Evrópu

„Ein ástæða þess að ufsinn, sem er mjög góður matfiskur, hefur ekki náð fótfestu á neytendamarkaði, er að flökin eru ekki jafn hvít og flök þorsks eða ýsu. Eftir eldun er ufsinn hins vegar mjög hvítur og hann hentar því vel til sölu til hótela og veitingahúsa,“ segir í tilkynningunni.

„Í dag er sjófrystur ufsi aðallega seldur til hótel- og veitingahúsakeðja í Evrópu, til dæmis á Spáni og í Tyrklandi. Úrlausnir geta falið í sér nýjar leiðir í flutningi á markað, þróun sjófrystra afurða, nýjar leiðir við sölu og markaðssetningu, ný markaðssvæði innan Bandaríkjanna eða þróun umbúða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert