Óska eftir úttekt á starfinu í Krýsuvík

Meðferðarheimilið Krýsuvík
Meðferðarheimilið Krýsuvík mbl.is/RAX

Stjórn Krýsuvíkursamtakanna hefur óskað eftir að embætti landlæknis geri úttekt á starfsemi Meðferðarheimilisins í Krýsuvík. Stjórnin telur nauðsynlegt að taka af allan vafa um árangur þess starfs sem unnið hefur verið á heimilinu í kjölfar nýlegrar umfjöllunar DV um meðferðarheimilið í Krýsuvík sem stjórnin kallar harkalega og villandi í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær.

„Stjórnin vísar þessari gagnrýni á bug en telur nauðsynlegt að taka af allan vafa um árangur þess faglega starfs sem unnið hefur verið á Meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Þess vegna leitar stjórn samtakanna nú til landlæknisembættisins sem lögum samkvæmt ber að hafa eftirlit með starfsemi sem þessari,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Í Krýsuvík er einstaklingsmiðuð langtímameðferð þar sem gert er ráð fyrir að skjólstæðingar dvelji í sex mánuði áður en þeir útskrifast. „Þátttaka í meðferðinni er krefjandi og tekur oft á þá einstaklinga sem hana sækja og því eru margir sem ekki ná að ljúka henni. Rannsóknir sýna að þeim sem dvelja lengur í meðferð vegnar betur en hinum sem stoppa stutt. Fjöldi meðferðarrýma í Krýsuvík er takmarkaður og langur biðlisti eftir að komast að,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er vísað í árangursmat óháðra aðila, sem gert hefur verið á nokkurra ára fresti, þar sem kemur fram að af þeim sem útskrifast úr meðferðinni eftir 6 mánuði voru 56,3 - 65,6% án vímuefna ári eftir að meðferð lauk en 31,3 - 40% að tveimur árum liðnum. Af þeim sem voru lengur en 3 mánuði en luku ekki meðferð voru 10,3-27,8% án vímuefna ári eftir meðferð en 4,3-26,7% tveimur árum eftir meðferð“ ritar stjórn Krýsuvíkursamtakanna í yfirlýsinguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert