Allt uppselt á innan við klukkustund

Daníel Ólafur (14) og Róbert Frímann (11) á miðvikudaginn þegar …
Daníel Ólafur (14) og Róbert Frímann (11) á miðvikudaginn þegar þeir vígðu söluvagninn. Ljósmynd/Ragnheiður Valgarðsdóttir

Bræðurnir Daníel Ólafur og Róbert Frímann Stefánssynir Spanó voru fyrir jól í gönguferð um Gróttu ásamt föður sínum þegar Róbert stakk upp á því að hefja sölu á kakói í Gróttu, en sjálfur var hann með hroll þar sem kalt var í veðri. Pabbi þeirra bætti við hugmyndinni um að selja kleinur og svo fór jólafríið í að smíða söluvagn. Kleinurnar og kakóið hefur slegið í gegn, en bræðurnir ætla ekki að taka allan ágóðann sjálfir, því hluti af söluandvirðinu mun renna í þyrlusjóð Landhelgisgæslunnar.

Selst allt strax upp

Á miðvikudaginn var fyrsti söludagur þeirra bræðra og segir Daníel Ólafur í samtali við mbl.is að það hafi gengið vonum framar. Þeir hafi selt um 7 lítra af kakói og tæplega 2 kíló af kleinum á innan við 40 mínútum. Ekki skrítið enda vekur sala strákanna mikla athygli þeirra sem leið eiga um og ekki skemmir fyrir skemmtilegt nafn á vagninum: „Coko and kleins“.

Eftir þessar góðu viðtökur ákváðu þeir að bæta aðeins við í dag, þegar aftur var haldið út á Gróttu, en niðurstaðan var aftur sú saman. Uppselt var á innan við klukkustund.

„Við förum örugglega aftur næsta laugardag,“ segir Daníel Ólafur spurður út í það hvort þeir ætli sér að halda þessu verkefni áfram. Segir hann að raunar sé vilji hjá þeim til að fara alltaf á laugardögum, eða alla vega meðan veður leyfir.

„Móttökurnar hafa verið fremur góðar, það er mikið af túristum sem koma hingað frá mörgum löndum,“ segir Daníel Ólafur og bætir við að þeir vilji margir vita hvað kleinur séu. Segir hann að það gangi stundum erfiðlega að útskýra það þar sem ekkert raunverulegt enskt heiti sé yfir kleinur. Það sem komist næst því sé „twisted doughnut“ segir hann.

Styrkja LHG eftir að faðir þeirra lenti í lífshættulegu slysi

Faðir drengjanna lenti árið 2012 í lífshættulegu slysi úti á sjó og þurfi að kalla til þyrlu gæslunnar. Daníel Ólafur segir að hann hafi í kjölfarið kynnst nokkrum starfsmönnum gæslunnar og þar sem þeir bræður hafi viljað styðja gott málefni líka hafi þeir ákveðið að láta hluta söluteknanna renna til þyrlusjóðs gæslunnar.

Þess má geta að hægt er að fá stakan bolla af kakói eða staka kleinu á 300 krónur, en saman kostar pakkinn 500 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert