Eins og rússnesk rúlletta

Kallað er eftir úrbótum á Reykjanesbraut.
Kallað er eftir úrbótum á Reykjanesbraut. mbl.is/Rax

„Það er þyngra en tárum taki að baráttunni um betri vegasamgöngur frá Reykjanesbæ um Reykjanesbraut sé enn ekki lokið,“ segir Þórólfur Júlían Dagsson, stjórnarmaður Pírata á Suðurnesjum.

Hann segir að allt of margir hafi lent í alvarlegum slysum á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar og við það verði ekki unað. Hann segir að Reykjanesbrautin hafi verið tvöfölduð að hluta en því verki sé ekki lokið.

„Það er sannarlega slæmt að verkið hafi ekki verið klárað en verra er að viðhaldi er ekki sinnt sem skyldi og umferðaröryggi er ekki tryggt í dag. Vegurinn er að grotna niður, í honum eru djúp hjólför sem safnast vatn í og mikil slysahætta á svæðinu,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Júlían Dagsson.
Þórólfur Júlían Dagsson. mbl.is/Eggert

Auk þess sé lýsing ekki nógu góð og ekki sé hægt að horfa fram hjá því að þessir þættir eru ávísun á fleiri slys. „Þeir sem þurfa daglega að keyra Reykjanesbrautina meðan ástandið er svona eru að spila rússneska rúllettu.“

Þórólfur segir að eina leið íbúa á Suðurnesjum sé að sýna samstöðu og grípa til aðgerða til að knýja fram breytingar til að tryggja öryggi á Reykjanesbrautinni. „Það öryggi sem lagt var upp með þegar brautin var tvöfölduð var einfaldlega falskt vegna skorts á viðhaldi,“ segir Þórólfur sem skorar á íbúa á Suðurnesjum að berjast fyrir því að brautinni verði haldið vel við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert