Fagnaði 100 ára afmælinu

Áslaug Helgadóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu í gær með …
Áslaug Helgadóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu í gær með veislu.

Áslaug Helgadóttir, fyrrverandi hárgreiðslukona og húsmóðir, hélt í gær upp á 100 ára afmæli sitt, en Áslaug er talin fyrsta íslenska hárgreiðslukonan sem nær hundrað ára aldri. Áslaug lauk sveinsprófi í hárgreiðslu fyrir um 80 árum og starfaði við það allt þar til hún eignaðist sitt fyrsta barn með eiginmanni sínum Bjarna Valdimarssyni, verslunarmanni.

Saman eignuðust þau þrjú börn en Bjarni lést árið 1976. Sjálf gat Áslaug ekki gefið sér tíma til að ræða við Morgunblaðið, enda önnum kafin á afmælisdaginn. Það kom því í hlut Ingigerðar Bjarnadóttur, dóttur Áslaugar, að svara spurningum blaðamanns.

Ingigerður segir að þrátt fyrir háan aldur sé móðir hennar við góða heilsu og hún hafi verið dugleg að halda sér við. „Sjónin og líkamlegur styrkur hefur versnað með aldrinum en fyrir utan það er hún alveg eldhress. Ég er orðin 58 ára en er ennþá að leita til hennar þegar mig vantar upplýsingar sem ég er búin að steingleyma. Það breytist ekkert með aldrinum enda er hún með algjöran límheila,“ segir Ingigerður og bætir við að langlífi sé ekki óalgengt innan fjölskyldunnar. Bróðir Áslaugar, Ingólfur Helgason, varð 98 ára auk þess sem Sigrún Helgadóttir, systir Áslaugar, varð 94 ára gömul.

Í tilefni dagsins bauð Áslaug börnum, barnabörnum og systkinabörnum til veislu í Lönguhlíð í gær, en hún hefur verið búsett í þjónustuíbúð í Lönguhlíð undanfarin ár. Þar stendur henni til boða heitur hádegismatur og þrif á tveggja vikna fresti. Ingigerður segir að þess utan sjái móðir hennar nær alfarið um sig sjálf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert