Ekkert ferðaveður á S- og SA-landi á morgun

Mynd/Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á morgun á Suðurlandi og Suðvesturlandi. Gert er ráð fyrir staðbundnu óveðri með austan 23-28 m/s meðalvindi undir Eyjafjöllum, sunnan Mýrdalsjökuls og að Öræfum. Þá er gert ráð fyrir snjókomu eða slyddu með köflum og að akstursskilyrði verði mjög erfið.

Í dag er aftur á móti útlit fyrir norðlæga átt, 8-13 m/s, um landið norðanvert með ofankomu, en hægari vindátt og bjartviðri í öðrum landshlutum. Verður dagurinn í dag því víðast á landinu með ágætasta vetrarveðri, eins og segir í athugasemdum veðurfræðings.

Frostið í dag ætti að slaga í tveggja stafa tölu í flestum landshlutum áður en dagurinn er á enda.

Óveðrið á morgun verður svipað og 2. janúar þegar gripið var til þess ráðs að loka vegum þegar verst lét og söfnuðust strandaglópar saman í Vík í Mýrdal. Annars staðar á landinu verður mun skárra veður á morgun, austan strekkingur eða allhvass vindur. Skýjað og úrkomulítið, en mögulega skafrenningur þar sem laus snjór er fyrir hendi.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að síðdegis á morgun verði ekkert ferðaveður frá Eyjafjöllum austur að Öræfum. Segir hann að í svona veðri lendi ökumenn oft í vandræðum og þá fylgi ofankoma líklega þessum mikla vindi. Þá geti talist líklegt að veginum verði lokað, líkt og í byrjun árs í svipuðu veðri.

Þá er ólíklegt að vindur gefi mikið eftir fram til mánudags og að óveðrið sunnanlands standi yfir stærstan hluta dagsins á morgun.

Hvetur Haraldur vegfarendur til að vera annaðhvort á ferðinni í dag eða þá á mánudaginn, en sleppa sunnudeginum á þessum hluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert