Óveður á leiðinni

Jafnvel má búast við lokunum á vegum vegna veðurs síðar …
Jafnvel má búast við lokunum á vegum vegna veðurs síðar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spáð er staðbundnu óveðri síðdegis syðst á landinu og með ströndinni að Öræfajökli. Þarna er útlit fyrir austanstorm eða jafnvel rok og ofankomu með köflum. Mun skárra veður verður annars staðar á landinu í dag. Hvessir með úrkomu víða um land á morgun. Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands á vef Veðurstofunnar.

„Nú er 967 mb lægð stödd 700 km SV af Reykjanesi. Hún þokast nær landi þegar kemur fram á daginn og síðdegis er gert ráð fyrir austan 20-25 m/s syðst á landinu og með ströndinni að Öræfajökli ásamt dálítilli slyddu eða snjókomu. Þarna er því útlit fyrir slæmt ferðaveður. 
Annars staðar á landinu eru veðurhorfur í dag betri og úrkoma verður lítil eða engin. Það hlýnar upp fyrir frostmark sunnanlands, en áfram bítur frost í kinnar fyrir norðan. 

Við Nýfundnaland er nú vaxandi lægð sem er á norðausturleið og á morgun sameinast hún fyrrnefndu lægðinni og saman mynda þær lægð morgundagsins. Það hvessir því víðar á landinu á morgun. Í stuttu máli sagt er þá útlit fyrir austan hvassviðri eða storm á suðurhelmingi landsins ásamt og rigningu, slyddu eða snjókomu og það hvessir einnig með úrkomu norðanlands annað kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurstofan varar við því að síðdegis í dag verður snjófjúk s.s. á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Kjalarnesi.  Í Mýrdal fer að snjóa um níuleytið en hlánar síðan. Undir Eyjafjöllum er spáð austanstormi og slær í 35-40 m/s í hviðum frá um kl. 17.00. Hvassast í kvöld. Í Öræfum við Sandfell verða hviður frá kl. 15.00.    

„Veður­stof­an hef­ur gefið út gula viðvör­un í dag á Suður­landi og Suðvest­ur­landi. Gert er ráð fyr­ir staðbundnu óveðri með aust­an 23-28 m/​s meðal­vindi und­ir Eyja­fjöll­um, sunn­an Mýr­dals­jök­uls og að Öræf­um. Þá er gert ráð fyr­ir snjó­komu eða slyddu með köfl­um og mjög erfiðum akst­urs­skil­yrðum. Jafnvel má búast við lokunum á vegum vegna þessa. Tímabilið sem um ræðir er frá kl. 15:00 í dag 21. janúar fram til kl. 20:00 á mánudeginum 22. janúar,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Siglufjarðarvegur er enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Það er hálka, snjóþekja og þæfingsfærð á vegum í Norðurlandi og víða éljagangur eða snjókoma. Dettifossvegur er lokaður.

Á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum. Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum en þæfingsfærð er á Fróðárheiði og þungfært á Ennishálsi og frá Drangsnesi og yfir í Bjarnarfjörð.

Á Austurlandi er snjóþekja eða hálka á vegum og skafrenningur á Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði. Hálkublettir eru með suðausturströndinni en greiðfært víða.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi austanátt, 10-15 m/s síðdegis, en 20-25 syðst á landinu og með ströndinni að Öræfajökli. Hæg breytileg átt um landið NA-vert. Dálítil snjókoma eða slydda suðaustanlands, en skýjað og úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hlýnar upp fyrir frostmark víða á sunnanverðu landinu, en frost 2 til 12 stig fyrir norðan.
Austan hvassviðri eða stormur á suðurhelmingi landsins á morgun og rigning, slydda eða snjókoma, hvessir einnig með úrkomu norðanlands undir kvöld.

Á mánudag:

Austan 13-20 m/s, en 20-25 syðst á landinu. Snjókoma með köflum og síðar rigning eða slydda og hiti 0 til 4 stig. Dálítil él norðan til á landinu, líkur á skafrenningi og vægt frost. 

Á þriðjudag:
Austan 13-20, en mun hægari vindur sunnan til á landinu. Snjókoma eða slydda, talsverð úrkoma austanlands. Norðaustlægari um kvöldið og þá þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi. Hiti kringum frostmark. 

Á miðvikudag:
Hvöss norðaustanátt með snjókomu eða slyddu, en úrkomulítið sunnan heiða. Hiti nálægt frostmarki. 

Á fimmtudag:
Minnkandi norðanátt og víða léttskýjað, en dálítil él norðanlands. Kólnandi veður. 

Á föstudag:
Útlit fyrir suðaustan- og austanátt með dálítilli snjókomu eða slyddu sunnanlands, en bjartviðri norðan til á landinu. 

Á laugardag:
Austlæg eða breytileg átt, úrkoma víða um land og hiti kringum frostmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert