Framtíðartekjur út um gluggann

Reykjanesbær.
Reykjanesbær.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir að framtíðartekjur bæjarins af United Silicon fari út um gluggann með gjaldþroti verksmiðjunnar.

Aðspurður segir hann bæinn hafa reiknað með um 100 milljóna króna tekjum af verksmiðjunni á ári hverju.

Hann segir að verksmiðjan skuldi bænum hátt í 200 milljónir króna, þ.e. 160 milljónir króna auk vaxta. „Við erum væntanlega að verða af þeim fjármunum. Síðan þurfum við að meta hvert framhaldið verður þegar skiptastjóri hefur lokið skiptum á þessu búi, sem getur tekið talsvert langan tíma. Á meðan verðum við bara að bíða og sjá,“ segir Guðbrandur.

United Silicon í Helguvík.
United Silicon í Helguvík.

Hann telur að meirihluti bæjarbúa hafi orðið feginn þegar verksmiðjunni var lokað í byrjun september. „Ég er ekkert viss um að bæjarbúar séu mjög leiðir yfir því að þetta sé að gerast. Það ástand sem hefur verið hér í byggðarlaginu á meðan verksmiðjan var í gangi var óbærilegt og óásættanlegt.“

Spurður hvort Reykjanesbær hafi gert einhver mistök í öllu ferlinu varðandi United Silicon kveðst hann fljótt á litið ekki koma auga á þau, nema að menn hafi kannski farið of geyst í upphafi og ætlað að drífa áfram hluti sem voru ekki að fullu kannaðir.

„En eftir að búið var að skrifa undir samninga og verkefnið var farið af stað gerðum við ekkert annað en að bíða og sjá. Síðan voru það lögformlegir eftirlitsaðilar sem áttu að sjá til þess að allt væri í lagi. Við komum ekkert nálægt þeirra rekstri en við hljótum öll að læra af reynslunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert