Horfið frá samráði með breytingunni

Skora Samtök ungra bænda á ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun …
Skora Samtök ungra bænda á ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun og halda stærð hópsins óbreyttri svo hann geti staðið undir nafni sem samráðshópur. mbl.is/Styrmir Kári

Samtök ungra bænda (SUB) gagnrýna harðlega þá ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að leysa upp samráðshóp sem endurskoða átti búvörusamninga og skipa þess í stað nýjan samráðshóp sem er tæplega helmingi fámennari.

„Með því hverfur ráðherra frá þeirri stefnu að ná skuli víðtækri sátt og skilningi margra aðila um búvörusamninga, eins og nauðsynlegt er,“ segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.
Í ályktun sem stjórn SUB samþykkti á fundi sínum 18. janúar sl. segir m.a. að með þessu sé „víðtæku samráði hafnað og þess í stað horfið til fortíðar þar sem fáir komi að borðinu.“

Nýi samráðshópurinn sé hvorki skipaður fulltrúa úr umhverfisráðuneytinu, sem eigi þó „marga snertifleti með landbúnaðinum, né heldur frá ungum bændum sem lengst þurfa að búa eftir þeirri stefnu sem mörkuð er núna.“

Skora samtökin á ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun og halda stærð hópsins óbreyttri svo hann geti staðið undir nafni sem samráðshópur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert