Kallar ekki eftir afsögn ráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnarandstæðingar gerðu harða hríð að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í leiðtogaumræðum á Alþingi í dag vegna Landsréttarmálsins. Var hún meðal annars spurð að því hvernig það færi saman að setja á laggirnar starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálunum á sama tíma og Sigríður Andersen sæti áfram sem dómsmálaráðherra eftir að hafa fengið á sig tvo Hæstaréttardóma vegna skipan í dómaraembætti.

Meðal annars var forsætisráðherra gagnrýndur í þeim efnum af Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, og svaraði Katrín því til að dómar Hæstaréttar væru skýrir og lokaorðið væri hjá honum. Hún styddi engu að síður þá vinnu sem í gangi væri í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem málið væri til skoðunar undir formennsku Helgu Völu. Málið væri þar í farvegi og síðan kæmi í ljós hverju sú vinna skilaði.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp Landsdómsmálið þar sem Katrín hefði stutt ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Katrín minnti á að það mál hefði verið niðurstaða í kjölfar vinnu rannsóknarnefndar Alþingis. Hins vegar hefði hún sagt það áður að hún teldi að það þyrfti að endurskoða það fyrirkomulag sem notast hefði verið við þar hvað svo sem annars ætti að koma í staðinn.

Katrín rifjaði einnig upp að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem ráðherrar hefðu fengið á sig slíkar niðurstöður án þess að þeir segðu af sér. Það hefði til að mynda gerst varðandi brot á jafnréttislögum og skipulagslögum. Sjálf hefði hún ekki kallað eftir því að ráðherrar segðu af sér í slíkum tilfellum. Hins vegar bæri að taka slíka úrskurði mjög alvarlega, skoða þá gaumgæfilega og laga það í kjölfarið sem þyrfti að lagfæra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert