Notendagjöld besti kosturinn

Skarphéðinn Berg Steinsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinsson ferðamálastjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Eftir fordæmalausa fjölgun ferðamanna í bráðum áratug er sá tími kominn að stjórnendur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja þurfa að endurmeta stöðuna. Vöxturinn er hægari en verið hefur og nýir aðilar hafa ekki sama svigrúm og áður. Með öðrum orðum þýðir þetta að atvinnugreinin og starfsumhverfi hennar er að verða þróaðra og fagmennskan vonandi meiri,“ segir Skaphéðinn Berg Steinarsson, nýr ferðamálastjóri.

Eftir að hafa starfað lengi sem stjórnandi ýmissa fyrirtækja í ferðaþjónustu og staðið í eigin rekstri hefur Skarphéðinn Berg ýmsar hugmyndir og skoðanir á ferðamálum. Fyrir vöxt og viðgang greinarinnar segir hann að há tíðni flugferða til og frá landinu sé lykilatriði. Í því efni sé mikilvægt að efla Keflavíkurflugvöll og Leifsstöð enn frekar sem skiptistöð í flugi yfir Atlantshafið. Fjölgun farþega með því móti skapi tækifæri fyrir landið allt.

 Reykjavík sterkt vörumerki

„Möguleikarnir felast í því að tengja landsbyggðina við Keflavíkurflugvöll með góðum samgöngum. Vissulega geta fyrirtæki í greininni og stjórnvöld reynt að hafa áhrif á hvert fólk fer, en ákvörðunin er alltaf ferðamannsins sjálfs. Langflestir koma til Íslands hingað af því að náttúra landsins er áhugaverð en þegar dvalartími fólks styttist, sem er alþjóðleg þróun og er nú gjarnan þrír til fjórir dagar, segir sig sjálft að fólk fer ekki langt út á land nema samgöngur séu góðar. Og margir halda sig mest hér í Reykjavík, sem er sterkt vörumerki og vinsæll ferðamannastaður,“ segir ferðamálastjóri og heldur áfram:

„Markaðurinn er annars mikið að breytast. Nú sækir til dæmis til Íslands í vaxandi mæli ungt fólk frá Asíu og því þarf að bregðast við með hugsanlega breyttu vöruframboði. Hinn dæmigerði túristi sem hingað kemur er ekki lengur miðaldra Evrópubúi í náttúruskoðun. Á síðasta ári fóru út úr landinu 2,2 milljónir manna og fjölgaði um 425 þúsund milli ára. Ferðamönnum frá Austurlöndum fjær á líka eftir að fjölga mikið og áhugi Icelandair á Asíumarkaði er í því efni skiljanlegur.“

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um möguleika á gjaldtöku til þess að fjármagna uppbyggingu ýmissa þeirra innviða og þjónustu sem fjölgun ferðamanna kallar á. Engin niðurstaða er þó komin enn.

„Það er pólitísk spurning hvort ferðamenn eigi að leggja meira til samneyslunnar á Íslandi. Ef svo er, þá eru ýmsar leiðir færar, svo sem hækkun á virðisaukaskatti, komugjöld eða þjónustu- og notendagjöld ýmiskonar. Sjálfur tel ég það síðastnefnda besta kostinn í stöðunni. En það er sama hvaða leið er valin, álögurnar hafa alltaf áhrif á verðlagið og þar með eftirspurnina,“ nefnir Skarphéðinn sem segir að þó ferðaþjónusta á Íslandi nálgist nú jafnvægi eftir langt vaxtarskeið séu tækifærin í greininni mörg. Alltaf öðru hvoru komi inn nýmæli sem slái í gegn eins og norðurljósaferðir t.d.

„Í ferðaþjónustu liggur skylda opinberra aðila í því tryggja að búa greininni góðar aðstæður, setja reglur og sjá til þess að öryggismálin séu í lagi. Þar er mikilvægt að bæta upplýsingagjöfina því fólk frá fjarlægu landi þekkir ekkert í líkingu við hafrót í Reynisfjöru, svartabyl á Mosfellsheiði eða rok undir Hafnarfjalli. Því er til stórra bóta að nú er farið að loka vegum og stöðum þegar verst lætur. Annað í atvinnugreininni er þó alls ekki á valdi stjórnvalda, svo sem verðlagning. Hafa má mörg orð um hátt verð á til dæmis kökusneiðum og vatni á flöskum, en slíkt bítur auðvitað fyrst og fremst fyrirtækin sem fara offari í verðlagningu en ekki heildina. Hitt er samt ljóst að Ísland er og verður aldrei ódýrt sem ferðamannastaður og á kannski heldur ekki að vera þannig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert