Eiríkur stefnir ríkinu

Eiríkur Jónsson lagaprófessor.
Eiríkur Jónsson lagaprófessor. Ljósmynd/Aðsend

Eiríkur Jónsson lagaprófessor hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu og krefjast bóta vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun í embætti dómara við Landsrétt. Kjarninn greindi fyrst frá málinu, en Grímur Sigurðsson, lögmaður Eiríks, staðfestir í samtali við mbl.is að verið sé að leggja lokahönd á stefnuna.

„Það er búið að ákveða að stefna ríkinu. Við erum enn að vinna í stefnunni og hún er alveg að verða til. Hún verður birt einhvern tíma á næstunni. Það er ekki gerð fjárkrafa, heldur er gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu. Við teljum að það sé algjörlega ótvírætt að sú bótaskylda sé fyrir hendi á grundvelli hinna dómanna tveggja,“ segir Grímur og vísar þar til dóma í málum tveggja annarra umsækjenda, Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, sem höfðuðu mál vegna þess að fram hjá þeim var gengið við skipunina.

Var það niðurstaða Hæsta­rétt­ar að dóms­málaráðherra hefði brotið gegn rann­sókn­ar­reglu stjórn­sýslu­laga þegar hún vék frá niður­stöðu mats­nefnd­ar við skip­un dóm­ara í Lands­rétt og gekk fram ­hjá fjór­um um­sækj­end­um. Ríkið var dæmt til að greiða Ástráði og Jó­hann­esi hvor­um um sig 700 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur. Ríkið var hins veg­ar sýknað af skaðabóta­kröfu í mál­um þeirra.

Eiríkur hafði áður sent bréf til embættis ríkislögmanns með kröfu um miskabætur og viðurkenningu á bótaskyldu vegna fjártjóns í lok síðasta árs.

Grímur segir aðstæður Eiríks vera aðrar en tveggja áðurnefndra umsækjenda hvað tjónið varðar. En leiða má að því líkur að því tekjur Eiríks í núverandi starfi séu töluvert lægri en þeirra. Þess vegna sé ótvíræð bótaskylda til staðar í hans máli.

Eiríkur var samkvæmt matsnefnd í hópi 15 hæfustu umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra ákvað engu að síður að ganga fram hjá honum við skipunina, líkt og þremur öðrum umsækjendum úr hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert