Skjálftinn fannst vel á mælum Veðurstofunnar

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Alaska í kjölfar skjálftans, sem …
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Alaska í kjölfar skjálftans, sem varð á 25 km dýpi um 300 km suðaust­ur af Kodiak.

Jarðskjálfti upp á 7,9 sem varð úti fyrir strönd Alaska nú í morgun var vel greinanlegur á mælum Veðurstofu Íslands. „Þegar þeir eru orðnir mjög stórir þá sjást þeir vel hjá okkur,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Upphaflega var greint frá því að skjálftinn hefði verið 8,2 en styrkur hans var síðan lækkaður niður í 7,9. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Alaska í kjölfar skjálftans, sem varð á 25 km dýpi um 300 km suðaust­ur af Kodiak. Að sögn Einars hefur jarðskjálftamiðstöð Banda­ríkj­anna (USGS) hins vegar nú lækkað viðvörunarstig sitt vegna skjálftans og er hann nú kominn í grænan flokk sem felur í sér að hættan á flóðbylgju er minni en talið var í fyrstu.  

„Þetta var sniðgengisskjálfti sem minnkar líkurnar á flóðbylgju,“ útskýrir hann. En í sniðgengisskjálfta er brotahreyfing skjálftans til hliðar, ekki upp og niður.

Yf­ir­völd í Alaska hvetja engu að síður þá sem eru við strönd­ina að koma sér í skjól. Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá al­manna­vörn­um er fólk beðið um að koma sér strax hærra upp í landi. Þegar flóðbylgju­viðvar­an­ir eru gefn­ar út eru tald­ar lík­ur á mikl­um öld­um og ekki sé víst að fyrstu öld­ur séu þær stærstu.

Þannig hafa íbúar á Kodiak-eyju margir komið sér fyrir í fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð var í menntaskólanum á staðnum, að því er greint er frá á vef Anchorage Daily News. „Það eru líklega á milli 300 og 400 bílar við skólann núna,“ hefur miðillinn eftir Larry LeDoux, lögreglustjóra á staðnum.

Annar stærsti skjálfti sem mælst hefur

Þetta er ekki fyrsti stóri skjálftinn sem verður á þessum slóðum, en stærsti skjálftinn sem orðið hefur í Bandaríkjunum varð á svipuðum slóðum árið 1964 úti fyrir Prince Williamsundi. Sá skjálfti mældist 9,2 og er annar stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur. Sá kostaði 129 manns lífið og var jafnvel greinanlegur í Seattle í tæplega 2.000 km fjarlægð.

„Það voru rosalegar flóðbylgjur sem fylgdu honum, enda með stærri jarðskjálfum sem hafa orðið,“ segir Einar. Ár og vötn við strendur jafnlangt í burtu og í Texas og Louisiana soguðust meira að segja til sjávar í þeim skjálfta áður en flóðbylgjurnar skullu á.

Einnig urðu stórir jarðskjálftar á svipuðum slóðum 1938 er þar mældist skjálfti upp á 8,3 og 1946 er þar mældist skjálfti upp á 8,6.

Einar segir skjálftann í dag hafa verið aðeins sunnar en þessa fyrri skjálfta.

Búast má að hans sögn við kröftugum eftirskjálftum eftir skjálfta af þessari stærð. „Nú þegar eru búnir að mælast tveir slíkir, einn sem var 5 að stærð og annar sem var 4,7 að stærð og sá stærri þeirra greindist örlítið á mælum hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert