Ráðin aðstoðardagskrárstjóri RÚV

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er nýr aðstoðardagskrárstjóri RÚV.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er nýr aðstoðardagskrárstjóri RÚV. mbl.is/Eggert

Sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðardagskrárstjóri RÚV.

Greint var frá þessu á fundi í morgun þar sem tilkynnt var um skipulagsbreytingar hjá stofnuninni.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir að ekki sé um nýja ráðningu að ræða í sjálfu sér. „Hennar starfssvið er að breytast. Hún er að taka á sig aukna ábyrgð,“ segir hann og bætir við að Ragnhildur Steinunni muni áfram sinna dagskrárgerð og að hún sé ekki að hverfa af skjánum.

„Hún hefur verið að koma af auknum krafti inn í ákveðin verkefni á undanförnum árum þar sem hún hefur ekkert endilega verið á skjánum. Þetta er kannski rökrétt framhald af því.“

Aðspurður segist Skarphéðinn ánægður með ráðninguna enda hafi Ragnhildur Steinunn, þrátt fyrir ungan aldur, langa og fjölbreytta reynslu af sjónvarpi og dagskrárstjórn.

Spurður nánar út í skipulagsbreytingarnar segir hann þær ekki vera stórvægilegar. Verið sé að skerpa áherslur þannig að fólk geti í auknum mæli einbeitt sér að því sem það hefur sérhæft sig í í starfi sínu hjá RÚV. Verkaskiptingin verði fyrir vikið skýrari.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert