Segir íbúa Vestmannaeyja í fjötrum

Karl Gauti Hjaltason, lengst til vinstri.
Karl Gauti Hjaltason, lengst til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég veit að fólk sem er sjóveikt fer ekki þessa leið án þess að geta lagst í koju,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag. Hann spurði samgönguráðherra um aðbúnað í norsku bílferjunni Bodø sem leysir Herjólf af næstu tvær vikur.

Karl sagði að það væri við hæfi að ræða málið í dag vegna þess að 45 ár eru liðin frá upphafi eldgossins í Heimaey.

Mér skilst að þar séu engar kojur fyrir farþega, sem mér finnst algjörlega óboðlegt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum á meðan flug til Vestmannaeyja fram og til baka til Reykjavíkur kostar 36.000 krónur,“ sagði Karl og spurði hvort Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefði íhugað að niðurgreiða flug í það minnsta í þessar tvær vikur.

Ef skipið er kojulaust, sem mér skilst að það sé, er algjörlega óboðlegt fyrir langflesta íbúa í Vestmannaeyjum að ferðast á milli nema borga stórfé fyrir að fljúga,“ sagði Karl.

Sigurður Ingi sagðist ekki þekkja búnað Bodø nákvæmlega en ætlar að leita upplýsinga um hvernig skipið er. Hann sagði að erfitt reyndist að fá afleysingaskip hér.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég vonast nú til að þeir sem hafa farið með þessi mál séu ekki að bjóða upp á einhvern afleitan kost,“ sagði Sigurður.

Menn verða að bera örlitla virðingu fyrir íbúum þessa lands í samgöngumálum,“ sagði Karl og þótti lítið til svara ráðherra koma. „Við erum að tala um þrjár vikur sem íbúar í Vestmannaeyjum eru í fjötrum og komast ekki upp á land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert