Útlit fyrir „gamaldags stórhríð“

Gul viðvörun er í gildi um stóran hluta landsins í …
Gul viðvörun er í gildi um stóran hluta landsins í dag. Hún er að renna úr gildi á Breiðafjarðarsvæðinu, en veður er að versna fyrir norðaustan og á Austurlandi. Skjáskot/Veðurstofan

Gul viðvörun Veðurstofu Íslands er nú í gildi fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og eystra, sem og Austurland og Austfirði. Veður fer nú skánandi á Breiðafjarðarsvæðinu, en veður á enn eftir að versna á Norðausturlandi og Austurlandi þar sem bæta á eftir í úrkomu.

„Fyrir norðausturfjórðunginn á landinu þá er veðrið að versna núna næstu tímana og verður orðið leiðindaveður seinnipartinn með næstum samfelldri ofankomu,“ segir Óli Þór Árnason vakthafandi veðurfræðingur. Víðast hvar verður snjókoma, en sumstaðar má þó búast við slyddu við ströndina. Ofankoman byrjar jafnvel sem rigning sumstaðar á láglendi á Austfjörðum, en fer svo fljótlega yfir í slyddu aftur.

Áfram verður hvasst á Norðvesturlandi og Vestfjörðum. „Þar er töluverður snjór, þannig að þar mun skafa áfram og því verður viðvörunin áfram í gildi þar,“ segir Óli Þór. Ekki sé von á mikilli ofankomu á því svæði, „en það verður mjög blint og því getur orðið erfitt í skafrenningnum.“

Veðurvefur mbl.is

Á Norður- og Austurlandi verður bæði hvassviðri og töluvert mikil ofankoma með því. „Þannig að þetta myndi væntanlega flokkast sem góð gamaldags stórhríð,“ útskýrir Óli Þór. „Vindstyrkur verður á bilinu 13-18 m/s og þegar að það kemur snjókoma ofan í það, þá má búast við blindri stórhríð þar sem sést ekki neitt.“

Nokkur breyting varð á spánni frá því í gær, en þá var ekki útlit fyrir að lægðin myndi fara svona nálægt Austfjörðunum og þar af leiðandi leit út fyrir að aðalúrkoman yrði á því svæði. „Núna ætlar hún hins vegar að koma upp að ströndinni og ýtir úrkomunni lengra vestur eftir Norðurlandi. Veður mun því skána fyrr á Austurlandi, en versnar í staðinn fyrir miðju Norðurlands.“

Veðurstofan hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám og tilkynningum Vegagerðarinnar og ekki halda á milli byggðarlaga á óþörfu. „Þeir eru búnir að vera í vandræðum í Víkurskarði í nótt og veðrið er ekki komið, þannig að það ætti í raun að segja allt sem segja þarf,“ segir Óli Þór og bendir á að ekki séu allir vegir með sólahringsþjónustu alla daga vikunnar.

„Fyrir norðausturfjórðunginn á landinu þá er þetta að versna núna næstu tímana og verður orðið leiðindaveður seinnipartinn með næstum samfelldri ofankomu. Það skánar á Austfjörðum á morgun en á Norðurland eystra og nánast öllum Tröllaskaganum austur í Skagafjörð væntanlega snjókoma út morgundaginn. Þannig að það er eiginlega ekki fyrr en á aðfaranótt fimmtudags sem veðrið skánar eitthvað og á fimmtudaginn lagir og léttir til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert