Vegir lokaðir fyrir norðan

Öxnadalsheiðin er lokuð.
Öxnadalsheiðin er lokuð. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Vegirnir um Öxnadalsheiði og Víkurskarð eru lokaðir. Mývatns- og Möðrudalsöræfum vari lokað klukkan 18. Ófært er um Dalsmynni, Hólasand og Dettifossveg en þungfært inn í Fnjóskadal.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Hálka eða snjóþekja og éljagangur eða skafrenningur er á Austurlandi og versnandi veður. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vopnafjarðarheiði og á Fagradal. Ófært er einnig á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi.

Vetrarfærð er á vegum á Suðurlandi, hálkublettir, hálka, snjóþekja eða krapi.

Hálka eða snjóþekja er víða á Vesturlandi. Þungfært er á Fellsströnd og á Skarðsströnd. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. 

Hálka eða hálkublettir eru á Suðausturlandi.

Snjóflóðahætta til fjalla á Austfjörðum

Í ábendingum frá veðurfræðingi kemur fram að spáin fyrir Austfirði hafi versnað. Reiknað er með umtalsverðri snjókomu og miklu hríðarveðri, einkum á fjallvegum. Vakin er athygli á snjóflóðahættu til fjalla á Austfjörðum. Einnig snjóar samfara allhvössum vindi norðaustanlands allstvestur í Eyjafjörð og á Öxnadalsheiði.

Vaxandi norðaustanátt

Veðurstofa Íslands spáir vaxandi norðaustanátt og bætir í ofankomu fyrir norðan. 10 til 20 metrar á sekúndu verða í kvöld en 13 til 23 metrar á sekúndu á morgun, hvassast um landið norðan- og vestanvert og undir Vatnajökli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert