Vilja leggja mannanafnanefnd niður

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er einn flutningsmanna frumvarpsins.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er einn flutningsmanna frumvarpsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hverjum einstaklingi verður heimilt að breyta nafni sínu verði frumvarp um mannanöfn að lögum. Flutningsmenn segja markmið þess að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig.

Flutningsmenn eru Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir úr Viðreisn, Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingunni og Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati.

Verði frumvarpið að lögum myndi mannanafnanefnd verða lögð niður og fólki yrði frjálst að gefa börnum nöfn að vild. Einnig mætti fólk breyta nafni sínu eins oft og það vill, í stað eins skiptis eins og nú er raunin.

Í frumvarpinu segir að lög um mannanöfn séu mjög takmarkandi fyrir transfólk, bæði varðandi kynbindingu nafna og rétt einstaklinga til að breyta nafni sínu. Í stað þess að fólk fari í gegnum langt og strangt ferli til að fá að breyta nafni sínu mun það geta breytt því þegar það ákveður að hefja kynleiðréttingarferli.

Lesa má nánar um frumvarpið hér.

mbl.is