Flutningabíll þverar veg á Holtavörðuheiði

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Flutningabíll þverar veg á Holtavörðuheiði og ekki er hægt að komast fram hjá, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. 

Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir vegna veðurs.

Á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja eða krapi á nokkrum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er víða á Vesturlandi, óveður er undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Ófært er á Svínadal og flutningabíll þverar veg sunnan til á Holtavörðuheiði. 

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka, snjóþekja og éljagangur. Þæfingur er á Mikladal og Klettshálsi, Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði en ófært á Þröskuldum, Hálfdán og Kleifaheiði.

Á Norðurlandi er víða hálka, hálkublettir og snjóþekja. Víða er einnig snjókoma, él og skafrenningur. Flughálka er milli Fljóta og Hofsóss, þæfingur milli Hofsóss og Sauðárkróks, inn Öxnadal og Hörgárdal, í Svarfaðardal og út á Grenivík. Þungfært er yfir Þverárfjall. Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru lokaðir. Ófært er um Dalsmynni og Hólasand.

Snjóþekja, þæfingur og snjókoma er víða á Austurlandi. Þæfingur er í Jökuldal, Fljótsdal og á Héraði. Þungfært er í Hróarstungu og í Skriðdal. Ófært er á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi. Hálka eða hálkublettir er á Suðausturlandi en hvessa á töluvert í Öræfum og Suðursveit eftir því sem líður á daginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert