Mál piltsins „hörmungarsaga“

Fangaklefi á Litla-Hrauni.
Fangaklefi á Litla-Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Átján ára pilturinn sem ráðist var á í íþróttahúsi Litla-Hrauns í gær er hælisleitandi frá Marokkó sem kom hingað til lands síðsumars 2016.

Þetta segir Guðríður Lára Þrastardóttir, talsmaður fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum.

„Hann segir mér að hann hafi orðið fyrir árás fyrir stuttu og óskaði eftir því í kjölfarið að vera fluttur [í fangelsið] á Hólmsheiði,“ segir Guðríður Lára um piltinn og bætir við að þeirri ósk hafi verið hafnað.

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar

Að sögn Guðríðar reyndi pilturinn ítrekað að komast í skip á leið til Kanada. Eftir nokkrar slíkar tilraunir var hann færður í gæsluvarðhald. Hún segir að ekki sé búið að dæma í máli hans.

Lengst af hefur hælisleitandinn dvalið hér á landi í umsjón barnaverndaryfirvalda en hann hefur fengið synjun um dvalarleyfi hérlendis.

Pilturinn er kominn af spítalanum. „Hann er mjög illa farinn, það er hrikalegt að sjá hann,“ segir Guðríður.

„Allt mál þessa drengs er hörmungarsaga frá upphafi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert