Pósturinn þarf að endurskoða gjaldskrár

Pósturinn þarf að endurskoða gjaldskrá sína og skila hagræði af …
Pósturinn þarf að endurskoða gjaldskrá sína og skila hagræði af fyrirhugaðri fækkun dreifingardaga til notenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag atvinnurekenda fagnar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá því í gær, sem felur í sér að Íslandspósti sé gert að lækka gjaldskrár sínar til að mæta því hagræði sem fylgja mun áformaðri fækkun dreifingardaga í þéttbýli. Þetta kemur fram í frétt á vef félagsins.

Að mati Félags atvinnurekenda stöðvar eftirlitsstofnunin Íslandspóst í því að rétta af taprekstur á þjónustu, sem rekin er í samkeppni við einkafyrirtæki, með því að sækja sér stóraukinn hagnað af einkaréttarþjónustu.

Í úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar segir að Íslandspósti beri að end­ur­skoða gjald­skrá sína vegna fækk­un­ar dreif­ing­ar­daga fyr­ir 1. júní á þessu ári. Skýrt kemur fram í úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar að Pósturinn eigi að skila hagræðinu af áætlaðri fækkun dreifingardaga til notenda þjónustunnar.

Verða að leita annarra leiða til að mæta taprekstri

Félag atvinnurekenda telur augljóst að með fyrirætlunum sínum um fækkun dreifingardaga á bréfsendingum í þéttbýli hafi Pósturinn ætlað sér að rétta af taprekstur af samkeppnisrekstrinum með því að sækja sér aukinn hagnað af einkaréttarþjónustu, en fyrir liggur að hagnaður Póstsins af einkaréttarstarfseminni er um hálfur milljarður samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins.

Í frétt á vef Félags atvinnurekenda er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að ekki verði annað séð en Íslandspóstur verði að leita annarra leiða en að skerða þjónustu einkaréttar til að bregðast við rekstrarvanda á samkeppnishliðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert