„Ráðherra fékk mjög skýr skilaboð“

Umferð um Vesturlandsveg.
Umferð um Vesturlandsveg. mbl.is/Ómar

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir að mikil samstaða hafi einkennt opinn fund sem haldinn var þar í kvöld um samgöngumál á Vesturlandi.

„Það leyndi sér ekki að þarna var mikil samstaða allra sveitarfélaga á Vesturlandi og það var sömuleiðis samstaða hjá íbúum,“ segir Sævar Freyr.

Fyrir hönd þeirra var Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, afhentur listi með 5.500 undirskriftum þar sem krafist er tafarlausra aðgerða vegna vegarins um Kjalarnes.

Ráðherra fékk einnig undirskriftir frá tugum fyrirtækja frá öllu Vesturlandi, ásamt öðrum fyrirtækjum sem nýta sér veginn mikið.

„Það má segja að samstaða hafi staðið upp úr í kvöld því ráðherra fékk mjög skýr skilaboð um þá kröfu að farið verði í úrbætur á Vesturlandsvegi,“ greinir bæjarstjórinn frá.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness. mbl.is/Sigurður Bogi

Langoftast vindhviður yfir 35 metrum á sekúndu

Spurður nánar út í fundinn segir hann að farið hafi verið yfir hversu hættulegur vegurinn er og að ákall hafi verið sett fram um að farið verði í tafarlausar úrbætur á honum, meðal annars vegna djúpra hjólfara. 

Einnig var greint frá því að af þeim vegum sem helst eru í umræðunni um að skuli tvöfalda eru langflesta daga á ári vindhviður yfir 35 metrum á sekúndu á veginum um Kjalarnes.  „Hann er ekki bara hættulegur í núverandi ásigkomulagi heldur eru fleiri aðstæður sem kalla á að það þarf að auka öryggi hans.“

Framkvæmdir á næstu þremur árum?

Fram kom í máli ráðherra að hann ætli að hlusta á þessa miklu samstöðu sem var á fundinum um vegabætur, sem reyndar eru fyrir utan kjördæmi Vesturlands. Einnig sagði hann að nú verði unnið að samgönguáætlun og að hann vonist til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir á næstu þremur árum. Sömuleiðis kom það skýrt fram af hans hálfu að ekki verði innheimt gjald í Hvalfjarðargöngum þegar ríkið tekur við þeim síðar á þessu ári.

Í lokin var samþykkt ályktun fundarins af öllum salnum þegar fólkið reis á fætur og klappaði.

Yfirlýsingin í heild sinni: 

Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi skorar á samgönguyfirvöld og Alþingi að bregðast tafarlaust við ótryggu og hættulegu ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi með nauðsynlegum framkvæmdum og tryggi jafnframt að tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Reykjavíkur verði lokið innan þriggja ára. Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert