Réðust á 18 ára fanga á Litla-Hrauni

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Fleiri en einn fangi réðust á átján ára erlendan fanga í íþróttahúsinu á Litla-Hrauni síðdegis í gær og veittu honum slæma áverka.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús en er ekki í lífshættu, en Vísir greindi fyrst frá árásinni. 

„Við lítum mjög alvarlegum augum á þessa líkamsárás. Þetta var gróf og alvarleg árás,“ segir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Enginn hefur enn verið yfirheyrður vegna árásarinnar en rannsókn er í fullum gangi. Elís segir fleiri en einn fanga hafa ráðist á piltinn. Verið er að athuga hversu margir veittu honum áverka og hversu margir áttu aðild að árásinni á annan hátt.

Fangaklefi á Litla-Hrauni.
Fangaklefi á Litla-Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Ekki er vitað um ástæðu árásarinnar en lögreglan er að skoða hvort greina megi atburðarásina á myndbandsupptökum.

Við fyrstu skoðun virðist ekki sem barefli eða vopn hafi verið notuð í árásinni. 

Lögreglan var fljót á vettvang í gær. Þegar komið var á staðinn höfðu fangaverðir fært hina grunuðu í fangaklefa.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

Páll Winkel fangelsismálastjóri kveðst líta árásina mjög alvarlegum augum. „Við bregðumst við með tvennum hætti. Annars vegar að kalla til lögregluna þegar svona á sér stað og hins vegar er það okkar verkefni að tryggja öryggi og ró í fangelsinu. Við gerum það sem þarf til að ná því markmiði. Við munum taka á þessu af okkar hlið með agaviðurlögum fyrir þá sem bera ábyrgð á þessu,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert