Vill fá vantraust fram strax

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, ráðleggur Pírötum í Landsréttarmálinu.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, ráðleggur Pírötum í Landsréttarmálinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar þið verðið loks búin að fullrannsaka málið verður það löngu gleymt og grafið,“ segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, í umræðum um Landsréttarmálið á Pírataspjallinu á Facebook.

Össur beinir þar ráðleggingum sínum til Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, sem boðað hefur vantrauststillögu á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra vegna málsins. Segir Össur ljóst að ráðherrann njóti nægjanlegs stuðnings þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og spyr þingmanninn í hvaða heimi hann búi að telja rétt að bíða með að leggja fram slíka tillögu á Alþingi.

Frétt mbl.is: Markmiðið að koma ráðherranum frá

Segir Össur Pírötum margt gefið, einkum að rannsaka mál djúpt, en þeir mættu læra ýmislegt um taktík. Ráðleggur hann þeim að leggja strax fram vantrauststillögu. „Það sem gerist er að þið fáið ítarlega umræðu og getið lagt ykkar skoðanir á borðið, og stillt bæði ráðherranum og þeim sem skýla henni upp við vegg. Það er það eina sem Píratar geta kreist úr málinu.“

Jón Þór hefur lýst þeirri skoðun sinni að hann telji Landsréttarmálið nægjanlega skoðað í kjölfar dóma Hæstaréttar, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga nægjanlega vel í tengslum við skipun Landsréttardómara, en hins vegar sé rétt að málið verði rannsakað af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til þess að reyna að auka stuðning við vantrauststillögu.

Össur segir að það geti þó hugsanlega verið skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar líkt og Jón Þór hafi lagt til. Málshöfðun Eiríks Jónssonar lagaprófessors gegn ríkinu vegna málsins gæti breytt stöðunni. Hann bætir síðan við í umræðunni að það vanti „alvöru þverhaus í lið pírata á Alþingi“ sem geti snúið þar „öllu á hvolf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert