Vill sjá konur upp í hæstu hæðir

Ingibjörg Þórðardóttir er ritstjóri sta­f­ræns teym­is á heimsvísu á CNN.
Ingibjörg Þórðardóttir er ritstjóri sta­f­ræns teym­is á heimsvísu á CNN. Ljósmynd/CNN

„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég hlakka til að byggja upp gott teymi en ég er með mjög gott starfsfólk með mér. Þetta er mikil áskorun. Við sem vinnum í fréttamennsku vitum að það eru bæði spennandi og skemmtilegir en jafnframt krefjandi tímar fram undan,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir fjölmiðlakona sem tók nýverið við nýju starfi innan fjölmiðilsins CNN. 

Hún mun starfa sem ritstjóri sta­f­ræns teym­is á heimsvísu hjá CNN. Starfstit­ill henn­ar er „Ex­ecuti­ve Ed­itor, In­ternati­onal“ og mun hún stýra meðal ann­ars alþjóðleg­um frétt­um og íþróttaum­fjöll­un­um frá London í Bretlandi, Hong Kong í Kína, Abu Dhabi í Sameinuðu furstadæmunum, Lagos í Nígeríu og New York í Bandaríkjunum. 

Flakkar á milli heimsálfa

Þar sem starfið nær heimshorna á milli og fyrirtækið CNN er stórt var fyrst greint frá ráðningu Ingibjargar innan CNN í síðustu viku en opinberlega í London í dag. Ingibjörg verður með talsverð mannforráð eða um 40 manns sem verða beint undir henni.

Ingibjörg hefur starfað á CNN frá árinu 2015 þegar hún var ráðin ritstjóri á alþjóðleg­um vefsíðum CNN. Hún hafði þá yfirumsjón með fréttum frá Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Nú bætast því við tvær heimsálfur, Asía og Suður-Ameríka. Áður en Ingibjörg fór yfir til CNN starfaði hún í 15 ár á BBC og síðast sem ritstjóri forsíðu eða „front page ed­itor“. 

Starfið krefst þess að hún mun þurfa að flakka talsvert á milli heimsálfa. „Ég held að það sé mikilvægt að hitta starfsfólkið eins oft og maður getur en ekki bara í gegnum Skype,“ segir Ingibjörg. 

„Maður verður að halda ótrauður áfram“

Það eru ekki margar konur sem gegna stöðu yfirmanns á fjölmiðlum í heiminum. „Á síðustu mánuðum hefur það komið sérstaklega vel í ljós að það er enn þá vegur fyrir okkur konur til að ná algjöru jafnræði í launamálum og stjórnunarstöðum. Maður verður að halda ótrauður áfram og vona að maður geti breytt einhverju. Auðvitað væri gaman að sjá konur ná upp í hæstu hæðirnar,“ segir Ingibjörg.

Hún bendir á að einn af yfirmönnum sínum sé kona. Hún segir hana sem og aðrar sem eru í stjórnunarstöðu innan fyrirtækisins duglegar að berjast fyrir hag kvenna á vinnustaðnum. Það hafi mikið að segja. 

Fréttir CNN breyst mikið á síðustu tveimur árum

Spurð hvort breytinga sé að vænta á CNN þegar hún tekur við stjórntaumunum bendir hún á að á síðustu tveimur árum hafa fréttir sem CNN birtir breyst talsvert. Breytingar hafa orðið á framleiðslu efnis þar sem meðal annars myndir og myndbönd spila stærra hlutverk og einnig eru verkefnin orðin stærri og taka lengri vinnslutíma. „Í dag er mikilvægt að fjölmiðill haldi sérstöðu sinni,“ segir Ingibjörg.

Hún bendir á nýlega frétt um bráðnun Grænlandsjökuls þar sem öll framleiðsla miðaðist við notendur farsíma sem er vaxandi lesendahópur CNN. Sjá frétt CNN

„Við fengum einnig nýlega styrk til að vinna að stóru verkefni í tengslum við stöðu kvenna í heiminum. Við munum halda áfram að einbeita okkur að fréttum um konur í heiminum. Ég er stolt og spennt að halda áfram að þróa það,“ segir Ingibjörg um áherslur í starfi CNN. Sjá hér umfjöllun CNN um stöðu kvenna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert