Lítið fór fyrir afurðakúnni

Afburðagripur. Kýr nr. 851 í fjósinu á Innri-Kleif mjólkaði vel …
Afburðagripur. Kýr nr. 851 í fjósinu á Innri-Kleif mjólkaði vel allt árið.

„Þetta var kýr sem maður tók aldrei eftir í fjósinu, hún át og mjólkaði og aldrei þurfti neitt fyrir henni að hafa,“ segir Gunnlaugur Ingólfsson, bóndi á Innri-Kleif í Breiðdal, um kú nr. 851 sem mjólkaði allra kúa mest á nýliðnu ári.

Nr. 851 mjólkaði 14.199 kg á árinu 2017, samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsins. Er það nýtt og glæsilegt Íslandsmet, 366 kílóum meira en metið sem Nína á Brúsastöðum setti árið áður. Burðartími nr. 851 féll vel að almanaksárinu því hún bar sínum þriðja kálfi 2. janúar 2017 og mjólkaði vel allt árið.

„Þetta var ósköp venjuleg kýr, en óvenjulega stór og falleg. Hún hafði alla möguleika til að innbyrða mikið fóður og mjólka vel. Hún fór alltaf fjórum sinnum á sólarhring í maltir en við erum með mjaltaþjón,“ segir Gunnlaugur. Hann segist almennt nota númer á kýr sínar og ekki gefa þeim nöfn nema einhver sérstök einkenni kalli á það.

Ljóst er að nr. 851 slær ekki met sitt því eigendurnir þurftu að fella hana fyrir nokkrum dögum. Hún fékk júgurbólgu. „Við reyndum að halda henni lifandi eins lengi og við gátum, þó ekki væri nema til þess að ná kálfinum sem hún átti von á,“ segir Gunnlaugur og segist að sjálfsögðu sjá mikið eftir þessum mikla afurðagrip.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert