Ólafur Ragnar mjaðmarbrotnaði á skíðum

Ólafur Ragnar Grímsson er bjartsýnn á að batinn verði góður.
Ólafur Ragnar Grímsson er bjartsýnn á að batinn verði góður. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, mjaðmarbrotnaði í skíðaslysi í skíðaparadísinni Aspen í Colorado-ríki í Bandaríkjunum um miðjan desembermánuð. DV greinir frá.

Hann segist í samtali við DV vonast eftir því að batinn verði góður, en hann fór í aðgerð ytra og þurfti að dvelja í fimm daga á sjúkrahúsi í kjölfarið. Síðan þá hefur Ólafur Ragnar verið í sjúkraþjálfun og endurhæfingu og stuðst við hækjur og staf.

Slysið gerðist í um 3500 metra hæð yfir sjávarmáli og að sögn Ólafs voru aðstæður ekki góðar til skíðaiðkunar, mikil ísing og klaki í brekkunum.

Dorrit hlúði að honum í brekkunni

Þetta var fyrsta skíðaslys Ólafs Ragnars, en fram kemur í DV að hann hafi áratuga reynslu að skíðamennsku.

Hann segir að slysið hafi í raun verið endurtekið efni, en flestir muna eflaust eftir því er Ólafur Ragnar datt af hestbaki snemma í sambandi þeirra Dorritar Moussaieff og mynd náðist af henni hlúa að forsetanum þar sem hann lá þjáður á jörðinni.

Dorrit var einnig fljót á vettvang í þetta skiptið, að sögn Ólafs.

„Það verður þolinmæðisverk að ná sér góðum að þessum meiðslum,“ sagði Ólafur Ragnar, en tók þó fram að það stöðvi hann í að sinna hugðarefnum sínum á sviði alþjóðamála, en forsetinn fyrrverandi mun ferðast til Japan í byrjun febrúar vegna Norðurslóðaráðstefnu í Tókýó og sitja öryggisráðstefnuna í München síðar í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert