Semja við ríkið um um þjónustu Netöryggissveitar

Samninginn undirrituðu þeir Sverrir Jónsson fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og …
Samninginn undirrituðu þeir Sverrir Jónsson fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar. Með þeim á myndinni hér til hliðar eru Sigurður Emil Pálsson og Guðbjörg Sigurðardóttir. Ljósmynd/Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti

Póst- og fjarskiptastofnun og íslenska ríkið hafa undirritað þjónustusamning um þjónustu Netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar við stjórnsýsluna, en samningurinn er sá fyrsti sem gerður hefur verið um þjónustu sveitarinnar.

Er markmið samningsins „að styrkja stjórnsýsluna til að verjast öryggisatvikum og takast á við netárásir og hliðstæðar ógnir með sérhæfðri þjónustu Netöryggissveitarinnar,“ að því er segir í frétt á vef Póst- og fjárskiptastofnunnar.

Samkvæmt samningnum veitir Netöryggissveitin stjórnsýslunni, og þá sérstaklega ráðuneytunum, netöryggisþjónustu sem á að vera sérsniðin að þörfum hins opinbera, svonefnda GovCERT þjónustu.

Ber netöryggissveitinni lögum samkvæmt, fyrst og fremst að þjóna skilgreindum þjónustuhópi sínum. Í þeim hópi eru fjarskiptafélögin, en aðrir rekstraraðilar ómissandi upplýsingainnviða geta einnig notið þjónustu Netöryggissveitarinnar á grunni þjónustusamninga.

Stýrihópur um netöryggi stjórnsýslunnar sem skipaður er fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis (sem fer með netöryggismál), fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis vann að gerð samningsins fyrir hönd ráðuneytanna og er hann byggður á norskri fyrirmynd. Þá standa samningaviðræður einnig yfir við önnur samtök rekstraraðila og byggja þær á sama grunni og í samningur vegna stjórnsýslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert