„Þetta var ótrúleg upplifun“

Bræðurnir í þyrlu LHG yfir Gróttu. Tómas Vilhjálmsson flugvirki Gæslunar …
Bræðurnir í þyrlu LHG yfir Gróttu. Tómas Vilhjálmsson flugvirki Gæslunar skoða staðinn við Gróttu þar sem þeir eru með söluvagninn sinn og bjóða upp á kakó og kleinur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætlum að halda áfram að styrkja þyrlusjóð Landhelgisgæslunnar,“ segir Daní­el Ólaf­ur Stefánsson Spanó sem hefur selt kakó og kleinur á Gróttu á Seltjarnarnesi með bróður sínum Róberti Frímanni síðust laugardaga. Þeir afhentu hluta ágóðans Landhelgisgæslunni í dag. 

Bræðurnir vildu styrkja Landhelgisgæsluna því faðir þeirra slasaðist illa fyrir nokkrum árum og þurfti þyrlan að sækja hann. Þeir voru alsælir með heimsóknina í dag sérstaklega þar sem þeir fengu að fljúga með þyrlu Gæslunnar yfir höfuðborgarsvæðið.     

„Þetta var ótrúleg upplifun og eitthvað nýtt. Við bjuggumst ekki við að fá að fara í þyrluflug,“ segir Daníel. Þeir flugu meðal annars yfir Gróttu og gátu því virt sölusvæðið vel fyrir sér. Spurður hvort þyrluflugið hafi heillað þá og hvort þeir hyggjast leggja það fyrir sig í framtíðinni, segist Daníel ekki viss um það. „Við höfum ekki hugsað mikið um það, pabbi er flugstjóri. Við stefnum frekar á íþróttirnar,“ segir Daníel. Þeir æfa körfubolta með KR.  

Viðskiptin eru vægast sagt blómleg hjá bræðrunum og hyggjast þeir halda áfram að selja „Cókó and kleins“ á heimasmíðuðum vagni næstu laugardaga í vetur. Þeir hafa meðal annars fjárfest í nýrri hrærivél fyrir ágóðann. Þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til þeirra í  kvöld var Daníel nýkominn heim af æfingu og þeir voru að búa til tvö kíló af kleinudeigi og 8 lítra af kakói.  

„Fyrst er þetta svolítið flókið en ekki þegar maður er búinn að gera þetta í nokkur skipti. Það er erfitt að ná laginu á þeim,“ segir hann spurður hvort það sé flókið að steikja kleinu. Hann tók fram að það kæmi allt með æfingunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert