Þyrfti ekki að spyrja að leikslokum

Fólkið klifraði yfir hliðið og inn á bannsvæðið
Fólkið klifraði yfir hliðið og inn á bannsvæðið

Diðrik Halldórsson veitingamaður við Gullfoss segir alltaf vera til fólk sem lætur ekkert stoppa sig. mbl.is birti fyrr í dag myndband af hópi ferðamanna sem fór inn á lokað svæði við fossinn þrátt fyrir viðvaranir rútubílstjóra og skýrar merkingar um lokun.

Hin lokaða gönguleið er um neðri stíg niður að Gullfossi en henni var lokað vegna frosts og hálku 7. nóvember og áætlað að opnað verði aftur með vorinu.

Tilvik sem þessi koma reglulega upp, en aðspurður segir Diðrik þeim þó hafa snarfækkað frá því sem var fyrir um tveim árum, en þá var rammgerðu hliði komið fyrir á veginum í stað þess að treysta á einfalt skilti.

Diðriki er ekki kunnugt um að menn hafi lent í sjálfheldu á svæðinu sem um ræðir. „En það eru staðir sem eru rosalega hættulegir. Það myndast snjóhengja í kverkinni nirði á klettunum fyrir ofan neðri fossinn. Ef snjóhengja færi niður með margt fólk þyrfti ekki að spyrja að leikslokum“ segir Dirðik.

Hann rifjar upp að fyrir um fjórum árum var um tíu manna hópur ferðamanna kominn saman á slíkri snjóhengju áður en fararstjórar gripu inn í. „Ef þetta hefði farið niður hefðu tíu manns farist.“

Á skiltinu sem varna á mönnum aðgang að svæðinu segir að brot varði refsingu. Hann veit þó ekki til þess að reynt hafi á það. Það kunni að vera einungis til að fæla fólk frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert