Engin „2007-stemning“ í brúðkaupum

Fleiri brúðkaup voru á síðasta ári.
Fleiri brúðkaup voru á síðasta ári. mbl.is/Thinkstockphotos

„Ég skynja aukinn vöxt í brúðkaupsathöfnum, og þær eru líka farnar að dreifast meira yfir árið,“ segir Sunna Dóra Möller, sóknarprestur við Hjallasókn í Kópavogi. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að 8.030 einstaklingar hefðu stofnað til hjúskapar á síðasta ári sem er tæplega 21 prósenta aukning frá árinu 2016.

„Í mínu tilfelli, ef ég skoða sumarið í fyrra þá var meira að gera þá en árið á undan,“ segir Sunna Dóra. Spurð hvort brúðkaupin séu að verða veglegri í takt við aukinn kaupmátt í landinu segir Sunna enga „2007-stemningu“ vera í brúðkaupum þar sem fólk sé að steypa sér í skuldir, en auðvitað sé alltaf eitthvað af stórum brúðkaupum í bland við brúðkaup smærri í sniðum.

„Þú sérð bæði stóru brúðkaupin þar sem allt er í gangi og líka brúðkaupin þar sem fólk býður fáum og bara sínum nánustu,“ segir Sunna Dóra og bætir við að í einhverjum tilfellum blási brúðhjónin til stærri veislu með fjölmennari hópi síðar.

Hún segir að 18. ágúst á þessu ári verði stór brúðkaupsdagur, enda sé fólk hrifið af fallegum runum eins og 18.08.18. Sjálf verður hún með brúðkaup sem hefst klukkan 18.08 þann daginn. 

„Ég myndi ekki segja að fólk sé að steypa sér í skuldir þegar það kemur að brúðkaupum. Margir gera þetta af hófsemd og leggja sig fram við að gera athöfnina fallega,“ segir hún og bætir við að fólk hugsi oftar en ekki langt fram í tímann og leggi fyrir.

„Það eru margir núna að spá í brúðkaupum fyrir 2019 og fólk er jafnvel að bóka í kirkjum fyrir árið 2020,“ segir Sunna. „Fólk er að safna að sér hugmyndum og gerir þetta í skrefum. Kaupa inn ákveðna hluti á löngum tíma sem mér finnst jákvætt og gott. En svo koma líka skyndibrúðkaup þar sem fólk hefur samband með stuttum tíma. Það er allt í þessu, fólk á öllum aldri og búið að vera saman lengi eða stutt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert