Upplausn í VR en rólegt í Eflingu

Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur er höfundur sögu Alþýðusambands Íslands sem …
Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur er höfundur sögu Alþýðusambands Íslands sem kom út í tveimur bindum árið 2016. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sumarliði R. Ísleifsson, sagnfræðingur sem skrifaði sögu Alþýðusambands Íslands, telur það ósennilegt að framboð undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur til stjórnar Eflingar, nái í gegn.

Hann telur að erfitt verði að steypa stjórninni sem fyrir er af stóli, fyrir utan Sigurð Bessason, formann Eflingar, sem gefur ekki kost á sér eftir tuttugu ára setu á valdastól.

„En það er ómögulegt að segja. Það var óvænt þegar hann sigraði í VR,“ segir Sumarliði og á við Ragnar Þór Ingólfsson sem sigraði í formannskjöri á síðasta ári.

Hann bendir á að aðstæðurnar í Eflingu og VR séu ólíkar. „Það er búin að vera upplausn í VR í mörg ár, frá því að formaðurinn hættir eftir hrun. Eftir það hafa verið formannsskipti nánast í hverjum einustu kosningum. Svona hefur þetta ekki verið í Eflingu.“

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgi til þeirra með lökustu kjörin

Sumarliði telur líklegt að Sólveig Anna, sem starfar á leikskóla, reyni að sækja fylgi til þeirra sem eru með lökustu kjörin innan Eflingar, enda sé hún sjálf í starfi sem ekki er hátt launað. „Það er geysilega hátt hlutfall af fólki af erlendum uppruna í Eflingu en maður á erfitt með að átta sig á hvort það fólk taki þátt í þessu eða ekki,“ segir hann og á við kosningarnar sem eru framundan. „Maður heyrir að ef einhverjir eru á strípuðum töxtum er það þetta fólk.“

Sumarliði segir ljóst að ólga kraumar undir niðri í verkalýðshreyfingunni og telur að ef Ragnar Þór heldur stöðu sinni sem formaður VR eftir næstu kosningar sem verða á næsta ári muni málin horfa dálítið öðruvísi við, enda er VR stærsta félagið innan VR.

VR og Efling eru með tæplega helming félagsmanna ASÍ innan sinna raða. 33 þúsund eru  í VR og rúmlega 28 þúsund í Eflingu.

„Maður veit ekkert hve staða Ragnars í VR er sterk. Það er alveg eins við því að búast að unnið verði gegn honum í næstu kosningum, því það eru væntanlega ekki allir sammála honum.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Samsett mynd

Kemur á óvart

Spurður hvort staðan sem núna er uppi innan verkalýðshreyfingarinnar komi honum á óvart í ljósi sögunnar, segir Sumarliði að launin hafi heldur farið hækkandi undanfarin ár og atvinnuleysið sé lítið sem ekkert. „Það kemur manni  aðeins á óvart að nákvæmlega þetta sé í gangi núna,“ segir hann og nefnir að meiri áhersla hafi verið lögð á baráttugleði en að tala fyrir auknum samræðum.

„Það er kannski aðeins á skjön við það sem maður hefur álitið að verkalýðshreyfingin væri að feta sig í átt til. Þær aðferðir hafa verið við lýði á hinum Norðurlöndunum, meðal annars í Danmörku, að það er samráð við atvinnurekendur og hið opinbera um að ef kjörin eiga að batna á það að gerast hægt og bítandi en ekki í einhverjum stökkum.“

Það hafi orðið niðurstaðan í tengslum við þjóðarsáttina fyrir 28 árum en hafi einhvern veginn ekki hitt í mark hér á landi. Sumarliði telur mögulegt að undiraldan sem núna er í gangi sé orsök þess að verkalýðsforystan hafi ekki náð að tækla hlutina rétt hvað þetta varðar.

Ekki hægt að horfa framhjá skalanum

Fram hefur komið að mótframboð til stjórnar Eflingar hafi ekki orðið í 20 ár, eða síðan Efling var stofnuð við sameiningu Dagsbrúnar og Framsóknar-stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum.

Að sögn Sumarliða voru mótframboð innan Dagsbrúnar fram að þeirri sameiningu að minnsta kosti tvívegis á tíunda áratugnum.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort deilur formanns VR og forseta ASÍ hafi ekki áhrif á stöðu ASÍ segir hann það augljóst, enda sé VR stærsta félagið og saman séu VR og Efling með stóran hluta félagsmanna í ASÍ. Það yrði mikið áfall fyrir ASÍ ef félögin ákveði að ganga út úr sambandinu.

Þegar horft er til sögunnar segir hann að óánægja hafi komið upp öðru hverju, til dæmis hafi prentarar verið utan ASÍ, auk þess sem Rafiðnaðarsamband Íslands hafi verið óánægt. VR sé aftur á móti mjög stór hluti af Alþýðusambandinu. „Það er af skala sem er ekkert hægt að horfa framhjá,“ segir hann og nefnir einnig stærð Eflingar, næststærsta félagsins innan ASÍ.

Hann bendir samt aftur á að skoða þurfi stöðuna eftir að kosningar hafi farið fram bæði hjá Eflingu og VR. Kosningarnar hjá VR verði mælikvarði á hversu mikinn stuðning Ragnar Þór hafi í raun og veru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert