Lögmaðurinn margítrekaði kæruna

Málið komst upp þegar drengurinn brotnaði niður fyrir nokkru síðan.
Málið komst upp þegar drengurinn brotnaði niður fyrir nokkru síðan. mbl.is/Kristinn

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður drengsins sem lagði fram kæru á hendur karlmanni á fimmtugsaldri í ágúst á síðasta ári fyrir kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn honum á árunum 2004 til 2010, ítrekaði kæruna oftar en einu sinni áður en lögregla tók málið til skoðunar í lok síðasta árs. Drengurinn var á aldrinum 8 til 14 ára þegar brotin voru framin. Það var Stöð 2 sem greindi fyrst frá meintum kynferðisbrotum mannsins í gærkvöldi.

Maðurinn sem um ræðir hefur starfað með börnum og unglingum nánast alla sína starfsævi. Síðustu ár hefur hann starfað á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur. Forstöðumaður heimilisins fékk fyrst að vita af kærunni í síðustu viku.

Lagði áherslu á leit á heimili mannsins

Maðurinn var stuðningsfulltrúi drengsins sem og dvaldi drengurinn mjög reglulega á heimili hans. Fór það eftir þörfum hve oft hann fór til hans, bæði um helgar og á virkum dögum. Systkini drengsins dvöldu líka hjá manninum á einhverjum tímapunkti og leikur grunur á því að maðurinn hafi jafnframt brotið gegn þeim.

Sævar segir málið hafa komist upp þegar drengurinn brotnaði niður fyrir nokkru síðan. „Í kjölfarið fer hann í langt og strangt meðferðarferli hjá fagaðilum til að fá aðstoð og byggja sig upp. Hann var algjörlega niðurbrotin. Það tók hann langan tíma að byggja upp kjark til að gera eitthvað í málinu.“

Í kjölfarið leitaði hann til Sævars með málið og óskaði eftir aðstoð. „Hann leitar til mín síðasta sumar og fer yfir málið með mér og biður mig um að aðstoða sig og fjölskyldu sína. Ég legg svo fram kæru í ágúst árið 2017. Ég þarf að ítreka þessa kæru við lögreglu á þessu tímabili,“ segir Sævar.

Ekki var hins vegar brugðist við kærunni fyrr en í desember síðastliðnum, fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram. „Þá var drengurinn kallaður í skýrslutöku, eftir að ég hafði látið ýta á eftir því.“ Í kjölfar skýrslutökunnar lagði Sævar einnig áherslu á að fengin væri leitarheimild til að kanna aðstæður á heimili mannsins. Þann 19. janúar síðastliðinn var maðurinn loks handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, og hefur það verið framlengt í tvígang.

Skýrt í gögnum að maðurinn starfaði með börnum

Sævar segir gögn í málinu skýrt hafa gefið til kynna alvarleika málsins. „Ég lagði fram gögn í málinu sem voru þess eðlis að það hefði verið grundvöllur til þess að málið væri tekið strax til skoðunar. Það kom fram í kærunni að maðurinn starfaði með börnum og væri í því hlutverki sem hann var í. Það gerðist ekkert fyrr en ég ýtti á eftir þessu.“

Sævar segist hafa margra ára reynslu af samskiptum við lögreglu og segir það frekar meginregla að úrvinnsla mála taki langan tíma, eða allt upp í tvö ár. Málsmeðferð miðað við mörg önnur mál hafi því verið hröð. „En þetta segir okkur að það er engin greining á málum innan lögreglunnar. Þeir fá fullt af kærum, en það þarf einhver greining að eiga sér stað í tilvikum þar sem talið er að sé verið að misnota börn. Þá þarf að grípa strax inn í. Þau hljóta að þurfa að fá forgang fyrir meðferð.“

Eftir að drengurinn fór að leita sér aðstoðar komst hann að því að það voru fleiri einstaklingar sem höfðu svipaða sögu að segja af manninum. Sævar veit þó ekki hvort maðurinn var stuðningsfulltrúi þeirra einstaklinga, en tengslin voru einhver. Stuðningsfulltrúar veita börnum sem þurfa á að halda stuðning við skóla eða utan skóla. Maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi fyrir félagsmálayfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert