Magnús krafinn um hálfan milljarð

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.

Héraðsdómur Reykjaness hefur stefnt Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra United Silicon, til að mæta fyrir dóm 4. apríl næstkomandi.

Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu þar sem stefnan, sem var gefin út 22. september í fyrra, er birt í dag.

Tilefnið er málshöfðun Sameinaðs sílikons ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur Magnúsi Ólafi til staðfestingar á kyrrsetningargerð og til greiðslu skaðabóta.

Stefnandi, Sameinað sílikon ehf., krefst þess að staðfest verði kyrrsetningargerð sem framkvæmd var hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 18. september 2017 í fasteignum að Huldubraut í Kópavogi og við Islandsvej í Lyngby, Danmörku, auk ökutækjanna Tesla Motors og Mercedes Benz, ásamt 100% eignarhluta stefnda í félaginu Brimstone ehf., og 73,52% eignarhluta stefnda í félaginu Tomahawk Development á Íslandi.

Einnig er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.230.904 evra, eða um 530 milljóna króna, auk dráttarvaxta.

Stefnufrestur Héraðsdóms Reykjaness er 1. mánuður. Fram kemur að Magnús sé búsettur í Lyngby í Danmörku. Mæti hann ekki í réttarsalinn má búast við því að útivistardómur gangi í málinu og kröfur stefnanda verði teknar til greina, að því er kemur fram í stefnunni.

Gæti numið yfir einum milljarði króna

Í stefnunni er vísað í niðurstöður rannsóknar KPMG á fjárhagslegum samskiptum stefnanda og suður-afríska félagsins Tenova Minerals, sem keypti bræðsluofn fyrir verksmiðjuna, um að  rökstuddur grunur væri um að Magnús Ólafur hafi svikið eða dregið að sér verulegar fjárhæðir í tengslum við samninga stefnanda og Tenov.

Greint er frá kröfuhafafundi frá 31. ágúst í fyrra vegna gjaldþrots United Silicon. Fulltrúar Tenova mættu til fundarins. Á fundinum kom fram að í bókum stefnanda hafi skuld Magnúasar Garðars við Tenova verið um ein milljón evra, eða um 125 milljónir króna. Deilt væri um aðrar 3 milljónir evra, eða um 375 milljónir króna, sem einnig gætu talist til skulda við Tenova.

Fram kom á fundinum með forsvarsmönnum Tenova að skuld Magnúsar Garðars gæti hugsanlega numið mun hærri fjárhæðum, eða um 9 milljónum evra, sem gerir um einum milljarði og 125 milljónum króna.

United Silicon.
United Silicon. mbl.is/RAX

Mikill munur óútskýrður

Á fundinum lögðu fulltrúar Tenova fram lánasamning ódagsettan frá árinu 2014 að fjárhæð 5.707.600 evra. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi greiða 80% af hverjum útgefnum reikningi en þau 20% sem eftir stóðu yrðu greidd síðar í samræmi við ákvæði lánasamningsins.

„Umræddur samningur er undirritaður af stefnda fyrir hönd stefnanda en hvorki samningurinn né skuldbindingarnar vegna hans rötuðu í bókhald stefnanda. Samningurinn skýrði þó hinn mikla mun sem var á milli útreikninga stefnanda og Tenova á heildarskuld stefnanda við Tenova,“ segir í stefnunni.

„Þrátt fyrir að samningar stefnanda við Tenova hafi í raun staðið til þess að fresta greiðslu á 20% af samningsverðinu til Tenova var raunin sú að heildarfjárhæð hvers reiknings frá Tenova var greidd út af bankareikningi stefnanda, reyndar í tvennu lagi, vegna sviksamlegrar háttsemi stefnda.“

United Silicon var sett í þrot fyrr í mánuðinum.
United Silicon var sett í þrot fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/Víkurfréttir

Sjö tilhæfulausir reikningar

Fram kemur að svikin eða fjárdrátturinn hafi verið framkvæmdur þannig að ítalskt félag, Pyrometic Tecnologia Elettrodica, hafi gefið út alls sjö falsaða og tilhæfulausa reikninga frá 5. desember 2014 til 20. október 2015 fyrir fjárhæð sem samsvaraði þeim 20% sem voru dregnar frá reikningum Tenova. Stefndi hafi látið líta svo út að þeir reikningar væru hluti af uppgjöri á verksamningi félagsins og Tenova.

„Hins vegar samkvæmt tölvupósti, dags. 1. september 2017, staðfestir Giorgio Melega, yfirlögfræðingur Tenova (e. Chief Legal Officer) það að reikningarnir sem gefnir hafi verið út hafi verið falsaðir, eða líkt og segir í tölvupóstinum: „Sorry to confirm that these invoice appear completely fake and confirm our initial perception of a forgery Scheme“.“

Þóttist vera Mark Giese

Vikið er að fölsun í stefnunni og greint frá því að samhliða því að stofna lénið tenovapyromet.com hafi Magnús Ólafur búið til tölvupóstfangið mark.giese@tenovapyromet.com. Hann hafi nýtt það til þess að hafa samskipti við starfsfólk stefnanda og endurskoðanda stefnanda hjá Ernst & Young í nafni Tenova sem Mark Giese.

„Nýtti stefndi hið nýja tölvupóstfang til þess að staðfesta ranga skuldastöðu stefnanda gagnvart Tenova við endurskoðanda stefnanda hjá Ernst & Young, og undirritar stefndi jafnframt samhljóða staðfestingu sem áðurnefndur Mark Giese. Mark Giese sjálfur hefur hins vegar neitað því að hann hafi haft aðkomu að þessu póstfangi og að hann hafi skrifað undir staðfestinguna um skuldastöðu stefnanda gagnvart Tenova.“

Fyrsta skóflustungan að kísilveri United Silicon tekin í Helguvík árið …
Fyrsta skóflustungan að kísilveri United Silicon tekin í Helguvík árið 2014. Magnús Garðarsson, stofnandi og þáverandi forstjóri United Silicon, stendur á milli Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þáverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra. Ljósmynd/Víkurfréttir/Eyþór

Yfirliti virðist hafa verið breytt

Í stefnunni kemur fram að Magnús Garðar virðist einnig hafa breytt yfirliti frá Tenova yfir kröfur Tenova sem innihélt upplýsingar um skuldir stefnanda vegna lánasamningsins.

„Starfsmaður stefnanda óskaði þann 24. mars 2017 eftir yfirliti frá Tenova fyrir árið 2016, ásamt reikningum og greiðslum. Mark Giese sendir umbeðið yfirlit sama dag . Yfirlitið frá Mark Giese berst hins vegar aldrei til starfsmanns Deloitte sem starfaði við afstemmingarnar, heldur virðist sem svo að yfirlitinu hafi verið breytt af stefnda svo það innihéldi ekki upplýsingar um lánasamninginn og hið falsaða yfirlit sent til starfsmanns Deloitte þann 29. mars 2017.

Þá virðist stefndi hafa falsað umboð sér til handa frá stjórn félagsins, dags. 24. mars 2017 til að geta framvísað því gagnvart Tenova í því skyni að geta átt áfram í samskiptum við Tenova fyrir hönd stefnanda eftir að öllum störfum hans fyrir stefnanda var lokið.“

„Mikið og alvarlegt trúnaðarbrot“

Fram kemur að stefnandi hafi lagt 11. september fram kæru til héraðssaksóknara á hendur Magnúsi Garðari vegna meintra brota og telur stefnandi ljóst að hann hafi gerst sekur um fjársvik, fjárdrátt og skjalafals.

„Með vísan til ofangreinds byggir stefnandi á því að um ólögmæta og saknæma háttsemi sé um að ræða sem felur í sér mikið og alvarlegt trúnaðarbrot af hálfu stefnda gagnvart stefnanda. Krafa stefnanda er því byggð á hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar,“ segir í stefnunni.

„Þá er fjárhæð dómkröfunnar samanlögð fjárhæð þeirra tilhæfulausu reikninga sem stefndi útbjó og misnotaði aðstöðu sína til þess að greiða eða láta greiða af bankareikningum stefnanda.“

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Rúmar fjórar milljónir evra auk dráttarvaxta

Greiðslutími og fjárhæðirnar sem greiddar voru af bankareikningum stefnanda vegna hinna tilhæfulausu reikninga eru nefndar í stefnunni. Samanlögð fjárhæð nemur 4.230.904 evra. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá greiðsludegi hvers reiknings.

„Tjón stefnanda á rætur sínar að rekja til brota stefnda sem kröfðust undirbúnings, fyrirhyggju og mikillar eftirfylgni af hans hálfu. Ásetningur stefnda var því mikill og einbeittur og telur stefnandi því eðlilegt að upphafsdagur dráttarvaxta sé sá dagur sem stefndi greiddi eða lét greiða umræddar greiðslur,“ segir í stefnunni.

Stefnandi áskilur sér einnig rétt til þess að koma að frekari kröfum, málsástæðum, lagarökum og sönnunargögnum verði tilefni til þess á síðari stigum málsins.

Höfðun einkamáls nauðsynleg

Fram kemur að stefnandi telji nauðsynlegt að höfða einkamál á hendur Magnúsi Garðari til greiðslu bóta „vegna framangreindra athafna stefnda og þess tjóns sem hann hefur valdið stefnanda“.

Einnig er málið höfðað til staðfestingar á kyrrsetningagerð sem var framkvæmd að beiðni stefnanda 18. september af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert