Lögmaður mótmælir fullyrðingum lögreglustjóra

Sævar segir framburð lögreglu ótrúverðugan.
Sævar segir framburð lögreglu ótrúverðugan. mbl.is/Kristinn

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður drengs sem lagði fram kæru á hendur starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur í ágúst á síðasta ári fyrir gróf kynferðisbrot sem hann á að hafa framið gegn honum á árunum 2004 til 2010, mótmælir þeim fullyrðingum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að lögregla hafi ekki upplýsingar um ítrekanir frá honum vegna kærunnar.  

Hann segir að fulltrúi sinn hafi að minnsta kosti þrisvar haft samband við lögreglu vegna málsins og ýtt á eftir því, enda hafi komið fram í gögnum að brotin væru alvarleg og að maðurinn starfaði með börnum. Blaðmaður hefur undir höndum tölvupósta því til staðfestingar að málið hafi verið ítrekað af hálfu fulltrúa lögmannsins og óskað eftir upplýsingum um stöðu þess. Tölvupóstarnir voru sendir á ákveðinn lögreglumann innan kynferðisbrotadeildarinnar sem Sævar hafði fengið upplýsingar um að færi með málið. Þeim var hins vegar aldrei svarað.

Sævar sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekkert hefði verið aðhafst í á máli drengsins fyrr en hann hefði margítrekað kæruna við lögreglu. Kæran var lögð fram í ágúst síðastliðnum en drengurinn var ekki kallaður í skýrslutöku fyrr en í desember. Fimm mánuðir liðu því frá því kæran var lögð fram og málið var tekið til skoðunar. Á meðan starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur, líkt og hann hefur gert síðastliðinn ár.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri í Reykjavík, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún kannaðist ekki við að ítrekanir hefðu borist vegna kærunnar. „Við erum ekki með upplýsingar um ítrekanirnar, en erum að fara yfir málið núna,“ sagði hún. Þá sagði Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, einnig að hann hefði ekki vitneskju um að málið hefði verið ítrekað.

„Þannig er að fulltrúi minn, Lárus Sigurður Lárusson lögmaður, hringir í lögregluna á tímabilinu október, nóvember til að ítreka málið. Þá var ekki búið að úthluta málinu. Fyrir framan mig núna er ég með tvo tölvupósta, annar er dagsettur 1. desember 2017. Þá var lögreglumanni sendur tölvupóstur þar sem hann er spurður um gang málsins. Þeim tölvupósti er ekki svarað. Síðan er sendur annar tölvupóstur þann 5. desember til sama manns, vegna þess að við sendum viðbótargögn í málinu. Þar er hann spurður hvort hann hafi fengið viðbótargögnin. Þeim pósti var heldur ekki svarað,“ segir Sævar sem er verulega ósáttur við að lögregla segist ekki kannast við ítrekanir hans. Hann segir það ótrúverðugan framburð.

Maður­inn var stuðnings­full­trúi drengs­ins sem og dvaldi dreng­ur­inn mjög reglu­lega á heim­ili hans. Fór það eft­ir þörf­um hve oft hann fór til hans, bæði um helg­ar og á virk­um dög­um. Systkini drengs­ins dvöldu líka hjá mann­in­um á ein­hverj­um tíma­punkti og leik­ur grun­ur á því að maður­inn hafi jafn­framt brotið gegn þeim.

Sæv­ar sagði í samtali við mbl.is í morgun málið hafa kom­ist upp þegar dreng­ur­inn brotnaði niður fyr­ir nokkru síðan. „Í kjöl­farið fer hann í langt og strangt meðferðarferli hjá fagaðilum til að fá aðstoð og byggja sig upp. Hann var al­gjör­lega niður­brot­in. Það tók hann lang­an tíma að byggja upp kjark til að gera eitt­hvað í mál­inu,“ sagði Sævar, en drengurinn setti sig í samband við hann í kjölfarið, sumarið 2017.

Þá liggur nú fyrir að maðurinn var einnig kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart barni árið 2013 vegna brota sem áttu að hafa verið framin á árunum 2000 til 2006. Það mál var hins vegar talið fyrnt og því látið niður falla. Mbl.is hefur einnig heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið tilkynntur til Barnaverndar Reykjavíkur og Félagsþjónustunnar vegna gruns um að hann hefði brotið kynferðislega gegn börnum. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segist hins vegar ekki kannast við við að slík tilkynning hafi borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert