Stuðningur við ríkisstjórnina dalar og mælist 60,6%

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á ríkisstjórnarfundi í Stjórnarráðinu. mbl.is/​Hari

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír njóta stuðnings 60,6% kjósenda samkvæmt nýrri skoðunarkönnun sem MMR framkvæmdi. Hefur stuðningurinn dregist saman frá því í síðustu könnun í janúar þar sem stuðningurinn mældist 64,7% og í desember þegar stuðningurinn mældist 66,7%.

Könnunin var framkvæmd dagana 25. Til 30. janúar og var heildarfjöldi svarenda 928 einstaklingar, 18 ára eða eldri.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi stjórnmálaflokka eða 22,3%. Næst koma Vinstri græn með 18,4% og Samfylkingin með 14,9%.

Sjálfstæðisflokkurinn missir um 3,5 prósentustig frá síðustu mælingu MMR sem lauk 17. Janúar, en Vinstri græn bæta við sig 3,4 prósentustigum. Samfylkingin bætir við sig einu prósentustigi milli mælinga.

Píratar mælast með 12,9% fylgi og auka við sig um 0,7 prósentustig og Framsóknarflokkurinn mælist með 11,2% fylgi og er óbreytt milli kannana.

Miðflokkurinn hækkar um 0,8 prósentustig og mælist nú með 7,7% á meðan Viðreisn lækkar um 0,2 prósentustig og mælist með 6,0%. Flokkur fólksins mælist með 4,2% og fylgi annarra flokka 2,4%.

Miðað við vikmörk þegar um er að ræða 1.000 svarendur geta verið allt að að +/-3,1%, en það þýðir að líklegt er að raunverulegt fylgi viðkomandi flokks, eða þess sem mælt er, sé einhversstaðar á bili sem er 3,1% hærra eða lægra en niðurstaða könnunarinnar gefur til kynna.

Lesa má nánar um niðurstöðurnar á vef MMR hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert